Mánudagur 1. febrúar 2010

32. tbl. 14. árg.

Í dag er ár liðið frá því Ólafur Ragnar Grímsson fól vinstriflokkunum að stjórna landinu með minnihluta þingmanna á bak við sig. Framsóknarmenn létu í senn rugla sig og hræða til lofa að verja vinstristjórnina, og fengu í staðinn þrennt: Algert áhrifaleysi á landsstjórnina, hávaðaskammir vinstriflokkanna og ríkisfjölmiðlanna í hvert sinn sem einstakir þingmenn Framsóknarflokksins virtust ætla að reyna að taka sjálfstæða afstöðu til mála, og loks fengu framsóknarmenn langt nef, strax og vinstriflokkarnir þurftu ekki lengur á þeim að halda, eftir kosningar.

Minnihlutastjórnin var mynduð með undirferli, í skjóli valdaránstilraunar á götum úti sem ríkisfjölmiðlarnir kynntu í ákafa undir, og smiðshöggið rak forseti Íslands þegar hann hunsaði tillögu sitjandi forsætisráðherra og reyndi ekki einu sinni að reyna að mynda meirihlutastjórn, eins og stjórnskipunarvenjan býður, heldur greip þegar færið og fól vinstriflokkunum stjórn landsins. Sú ríkisstjórn sinnti síðan fyrst og fremst gæluverkefnum nýju stjórnarherranna, þó í orði kveðnu væri stjórnin mynduð um neyðaraðgerðir sem enga bið þyldu. Fyrsti mánuðurinn fór í hatursfrumvarp gegn seðlabankastjórum en síðan var lagt bann við vændi og barnaflengingum á heimilum. Og allt létu fréttamenn sér vel líka.

Í dægurumræðu undanfarinna missera hafa mörg orð verið misnotuð stórlega. Varla líður sá dagur að einhver blogandi skellibjallan æpi ekki „landráð“, út af einhverri fréttinni sem hún hefur þá nýlega misskilið næstum jafn mikið og landráðahugtakið. Orðaverðbólgan, sem geisað hefur í opinberri æsingaumræðu síðustu missera, er jafn eyðileggjandi fyrir almenna umræðu, og hefðbundin óðaverðbólga er fyrir traust á gjaldmiðli hvers ríkis. Meðal annars þess vegna ættu menn að reyna að hafa hemil á fullyrðingagirninni og stóryrðunum. Verri orðaverðbólgunni er þó staðreyndahirðuleysið sem lýsir sér í því að fleiri og fleiri leyfa sér að halda bara einhverju fram, ef það hentar málstaðnum. Stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, háskólakennarar og ótal margir aðrir, virðast hreinlega leyfa sér að halda bara því fram sem þeim helst dettur í hug hverju sinni, og enginn telur sig bera ábyrgð á orðum sínum. Fullyrða bara og fullyrða, engir fyrirvarar, engir varnaglar. Sumir dæla stóryrðunum jafnvel daglega yfir fólk, eins og ekkert sé sjálfsagðara.

En vegna orðaverðbólgunnar verður að spara sig þegar kemur að því að velja orð yfir þau stjórnarskipti sem urðu fyrir ári, og þann aðdraganda sem varð að þeim. Sá aðdragandi var árásir á alþingishúsið og opinberar byggingar, með grjóti, eldi og mannsöfnuði, slasað fólk og skemmdar eigur. Með daglegri háreysti utanhúss var reynt að gera opinberar stofnanir óvirkar, og með ofbeldi og hótunum um það var reynt að þvinga réttilega kjörna ríkisstjórn frá völdum. Í framhaldi af þessu setti Samfylkingin á svið leikrit og forseti Íslands lauk síðan verkinu.

Ef að framtíðin verður óbrjáluð á Íslandi, þá mun hún dæma þessa framgöngu harðlega. En sem framlag sitt í baráttuna gegn ofnotkun stóryrða mun Vefþjóðviljinn ekki velja þessum stjórnarskiptum heiti að sinni.