Helgarsprokið 31. janúar 2010

31. tbl. 14. árg.

F lestir virðast ganga út frá því sem vísu að svonefndar eftirlitsstofnanir fái það óþvegið í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið. Engu að síður munu ýmsir draga þá kolröngu ályktun að meira þurfi af eftirlitinu sem sagt er að hafi brugðist. Súpan er óæt og svo er hún svo naumt skömmtuð.

Það gæti því orðið niðurstaðan að stofnanir sem taldar eru hafa brugðist verði verðlaunaðar með fleiri starfsmönnum og auknu framlagi frá skattgreiðendum. Til dæmis stofnanir sem eiga að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Og það engu að síður þótt rekstrarkostnaður þeirra hafi margfaldast á undanförnum árum. Þetta verður svo þeim mun undarlegri ráðstöfun þegar haft er í huga að fjármálakerfið hefur skroppið hressilega saman að undanförnu.

Ein er þó sú eftirlitsstofnun sum mun að öllum líkindum verða undanþegin hvers kyns ákúrum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um bankahrunið. Bergþór Ólason fjármálastjóri velti því fyrir sér í grein í Morgunblaðinu í gær.

En hætt er við að ein eftirlitsstofnun ríkisins, og sú sem einna mestar hefur heimildirnar, verði lítt skoðuð að sinni. Samkvæmt lögum nr. 85/1997 um umboðsmann alþingis skal umboðsmaður hafa eftirlit með allri stjórnsýslu ríkisins og gæta þess að hún fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður er ekki bundinn við kvartanir borgaranna heldur getur tekið mál upp að eigin frumkvæði, sjái hann ástæðu til þess. Umboðsmaður hefur afar víðtækar heimildir við eftirlitsstörf sín og getur samkvæmt lögunum „krafið stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.“ Þá getur hann kallað starfsmenn stjórnsýslunnar á sinn fund og fengið frá þeim upplýsingar og skýringar sem varða einstök mál og á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns.

Það er ótvírætt að umboðsmaður alþingis er ein allra úrræðamesta eftirlitsstofnun landsins. Þó að umboðsmaður geti ekki gefið bindandi fyrirmæli um aðgerðir í stjórnsýslunni, og hann veiti aðeins álit en ekki úrskurði, þá ber honum að hafa eftirlit með allri stjórnsýslu, hefur takmarkalitlar heimildir við það eftirlitshlutverk og getur að fenginni athugun gert stjórnvöldum eða eftir atvikum alþingi, aðvart ef hann telur pott brotinn.

Ekki veit ég hvort embætti umboðsmanns alþingis svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins. Ég veit ekki hvort ætlast hefði mátt til þess að umboðsmaður hefði beitt eftirlitsheimildum sínum varðandi þá aðila stjórnsýslunnar sem hafa áttu auga með fjármálafyrirtækjum. Vel mætti segja mér að ekkert sé við umboðsmann að sakast, þrátt fyrir eftirlitshlutverk og eftirlitsheimildir hans. En hitt er ljóst að væntanleg álitsgerð rannsóknarnefndar alþingis mun ekki taka af neinn vafa um það því að af snilligáfu sinni ákvað alþingi að setja umboðsmann alþingis einmitt í nefndina sem sett var til höfuðs stjórnsýslunni, og „eftirlitsstofnunum“ alveg sérstaklega. Það var óráð, með fullri virðingu fyrir núverandi umboðsmanni alþingis og annáluðum hæfileikum hans við að þefa uppi jafnvel smæstu aðfinnsluefni stjórnsýsluvaldshafa.

Með stofnun embættis umboðsmanns alþingis var ef til vill leitast við að svara spurningu Rómverja: Hver á að gæta varðanna. En það svar er ekki endanlegt því með umboðsmanni var aðeins bætt við nýjum flokki varðmanna. Þeir geta sofnað á verðinum líkt og aðrir.

Þær breytingar sem gerðar verða á fjármálaeftirliti á næstunni verða allar gerðar undir þeim formerkjum að sett hafi verið undir þá leka sem voru áður á eftirlitinu. Sömu mistökin verða ekki gerð aftur, munu stjórnmálamennirnir segja hróðugir. Og líklega er nokkuð til í því. Næstu mistök verða ekki eins heldur bara öðruvísi.