Laugardagur 30. janúar 2010

30. tbl. 14. árg.

Í Viðskiptablaðinu, sem kom út í fyrradag, er talað við Jón Helga Guðmundsson, einn aðaleiganda Krónunnar, Byko og fleiri fyrirtækja. Í viðtalinu vekur hann athygli á því, að hann þurfi nú, í rekstri síns fyrirtækis, að glíma á markaði við keppinauta sem bankar hafi yfirtekið og haldi nú úti á eigin kostnað. Hann fagnar því að fyrirtæki sitt standi í skilum við alla sína viðskiptamenn og að enginn þurfi að „afskrifa neitt vegna félagsins. Það er auðvitað ekkert auðvelt í þessu umhverfi þar sem maður er að fást við samkeppni við ríkið og félög sem bankarnir eru búnir að taka yfir.“ Blaðamaður tekur þá dæmi af Húsasmiðjunni, sem Landsbankinn hefur tekið yfir, og Jón Helgi bætir við: „Já, við getum tekið þá sem dæmi. Það er svo merkilegt að þeir eru búnir að þenja sig út hérna á síðustu árum og hafa sett upp verslanir um allt land. Síðan eru skattgreiðendur látnir borga þetta og þeir reka þetta áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ég sá fyrir skömmu viðtal í einhverju blaði við framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags Landsbankans og þar kom fram að þeir telja skyldu sína að auka upplýsingagjöf sína. En þrátt fyrir að Húsasmiðjan sé ríkisfyrirtæki er það ekki búið að skila ársreikningi fyrir árið 2008 til ársreikningaskrár!“

Hér er hreyft mikilvægu máli. Það er mjög óeðlilegt að þeir sem berjast fyrir tilveru fyrirtækja sinna með heiðarlegum hætti á markaði, þurfi auk annars að glíma við keppinauta sem hafa þanið sig til hins ítrasta, en ríkisbanki tekið yfir og heldur nú gangandi, í stað þess að selja þegar til nýrra eigenda. Hér er ábyrgð stjórnvalda mikil, því þau ákváðu á sínum tíma að færa útlán til fyrirtækja úr þrotabúum gömlu bankanna yfir í nýju bankana og sjá þar með um áframhaldandi rekstur fyrirtækjanna. Á stjórnvöldum hvílir ábyrgðin á þeim viðskiptaháttum sem bankarnir hafa viðhaft undanfarið og einnig sú mismunandi afgreiðsla sem einstakir viðskiptamenn bankanna hafa bersýnilega fengið, eftir að rekstur þeirra hefur siglt í strand. Þegar og ef fréttamenn og álitsgjafar hafa fengið nægju sína af fortíðinni, þá munu þeir hugsanlega beina sjónum í þessa átt, en þá verður það eflaust of seint fyrir marga sem enn berjast í heiðarlegum einkarekstri við ríkisbanka og eftirlætis viðskiptamenn þeirra.