H ið opinbera hélt hátíð í Laugardalshöll í gær þar sem handknattleikslandsliðið var hyllt fyrir árangur þess á nýjasta Evrópumeistaramótinu í handknattleik. Jóhanna Sigurðardóttir hélt tölu og þakkaði landsliðinu fyrir að „stappa stálinu“ í landsmenn.
Það er skiljanlegt að landsliðinu sé þakkað fyrir að stappa stálinu í landsmenn. Ekki eru neinir aðrir að því.
Þ egar Ríkissjónvarpið sýndi leiki landsliðsins í Austurríki rann af og til borði yfir skjáinn þar sem safnað var fé til stuðnings Handknattleikssambandinu. Menn gátu hringt í símanúmer og myndi þá dragast fé af símareikningi og verða fært Handknattleikssambandinu. Þarna var þannig boðið upp á einfalda aðferð fyrir alla þá sem styðja vildu Handknattleikssambandið til frekari afreka og umsvifa. Fjársöfnun, sem neyðir engan til neins en er aðgengileg og þægileg fyrir þá sem vilja vera með.
Þegar landsliðið kom heim í gær var því tekið með fleiru en samkomu og ræðuhöldum. Jóhanna Sigurðardóttir afhenti Handknattleikssambandinu að auki sérstaka gjöf frá ríkisstjórninni, tíu milljónir króna.
Að því gefnu að gjafafjárins frá ríkisstjórninni hafi ekki verið aflað með samskotum á síðasta ríkisstjórnarfundi, þá er hér afar óeðlileg ráðstöfun, þó ráðherrum þyki freistandi að kaupa sér stutta fjölmiðlastund með hinum vinsælu handknattleiksmönnum. Með símasöfnun eins og fram fór dagana á undan var leitað frjálsra framlaga, en þarna ákváðu ráðherrar að taka fé, sem tekið hefur verið með nauðungargjöldum af vinnandi fólki, og færa það Handknattleikssambandinu.
Þó upphæðin sé lítil í öllu útgjaldaflóði ríkisins er hún áminning um hinn stöðuga fjáraustur í íþróttahítina. Sveitarfélög í öllum landshlutum hafa eytt stórkostlega til íþróttamála á síðustu misserum og á það ekki lítinn þátt í afleitri fjárhagsstöðu þeirra, sem leggst svo á íbúana með hækkandi útsvari og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum.
Hið eðlilega væri að skera þessi framlög verulega niður en lækka skatta á móti. Þannig gætu þeir, sem raunverulega vilja greiða til íþróttamála, borgað sig inn á leiki, greitt félagsgjöld og borgað í byggingarsjóði valla og mannvirkja, en þeir sem eiga fullt í fangi með lífsbaráttuna gætu betur sinnt henni. Meginatriðið er að fólk réði meiru sjálft um afrakstur eigin vinnu en þyrfti síður að sæta því að stjórnmálamaður, hvort sem er þingmaður eða sveitarstjórnarmaður, tæki af því peningana með valdi, og setti þá í nýja hlaupabraut „til þess að uppfylla kröfur landsmótsnefndar“.
En svo lengi sem sveitarstjórnum stýra menn sem hræðast mest af öllu að hringingavél íþróttafélagsins verði í næsta prófkjöri beitt í þágu einhvers sem skaffar meira, þá heldur þetta áfram. Borgararnir verða skattlagðir en íþróttamafían fær skrifstofurnar, stúkurnar, fararstjórana, æfingavellina og hallirnar, allt á kostnað íbúa, hvort sem þeim líkar betur eða verr.
N ú hugsar eflaust einhver með sér, að ef framlög til íþróttamála verða skert en skattar lækkaðir á móti, þá komi skerðingin jafnt niður á öllum sem stunda vilji íþróttir en skattalækkanirnar nýtist þeim ekki jafnt. Þar sem ekki borga allir jafn háa skatta er ekki við því að búast að skattalækkanir komi jafnt niður. Ef menn hins vegar vilja nota opinbert fé, til að létta undir með þeim sem ekki gætu veitt sér dýra íþróttaiðkun, eða annað slíkt, þá geta þeir gert það með mun einfaldari og ódýrari hætti en þeim stórfellda fjáraustri til íþróttahreyfingarinnar sem stundaður er nú. Sá vilji margra, að jafna aðstöðu fólks sem býr við ólík kjör, verður allt of oft skálkaskjól þeirra sem vilja sem mestar fjárveitingar til gæluverkefna sinna, óralangt umfram það sem þyrfti til þess að ná því markmiði að jafna aðstöðu fólks.