Mánudagur 18. janúar 2010

18. tbl. 14. árg.

T vær ástæður eru fyrir ósveigjanleika og heimtufrekju sem breska og hollenska ríkisstjórnin sýna Íslandi.

Sú fyrri er að þær hafa komist að raun um, sér til jafn mikillar undrunar og ánægju, að íslenskir ráðamenn þessa dagana, eru af þeirri tegund sem í öðru samhengi yrði lýst þannig að þeir væru harðstjórar á heimili en lyddur úti í bæ. Það vantar ekki að íslenskir ráðamenn geti öskrað á eigin liðsmenn. Að þeir geti látið röksemdir, skoðanir og óskir á heimavelli sem vind um eyru þjóta. En þegar kemur að því að eiga við utanaðkomandi menn, þá er allur vindur úr okkar mönnum. Hvað sem þeim er sagt um réttindi og skuldbindingaleysi Íslands, svara þeir alltaf með því sama. Bretar samþykkja það ekki. Computer says no.

Síðari ástæðan er einföld. Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Bretar og Hollendingar ímynda sér að það þýði að íslensk stjórnvöld og mikill meirihluti kjósenda vilji ganga í Evrópusambandið. Þeir gætu hindrað það. Þeir skilja auðvitað ekki að annar stjórnarflokkurinn vill alls ekki ganga í Evrópusambandið, þrátt fyrir að hafa sent þangað inngöngubeiðni. Þeir vita ekki að á alþingi er meirihluti gegn Evrópusambandsinngöngu. Rétt eins og skoðanakannanir benda til að sé meðal almennra kjósenda. Bretar og Hollendingar halda auðvitað að Ísland langi í Evrópusambandið, og af því að þeir gætu hindrað það, þá gefa þeir ekkert eftir af kröfum sínum.

Íslendingar gætu slegið þetta vopn úr höndum Breta og Hollendinga og um leið svipt þá því sem þeir halda að sé sitt helsta vopn. Alþingi gæti einfaldlega afturkallað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ekki er að efa að fyrir því er verulegur meirihluti á alþingi. Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti kjósenda er á sömu skoðun. Og eftir að flokksráð vinstrigrænna lagði um helgina fyrir þingmenn og ráðherra sína að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu er ljóst að enginn þingmanna flokksins myndi greiða atkvæði gegn tillögu um afturköllun inngöngubeiðninnar.

Slík ákvörðun hefði ótal kosti. Bretar og Hollendingar sæju sitt helsta vopn tekið frá sér, og yrðu mun sveigjanlegri í samningum, ef menn endilega vilja semja við þá um kröfur sem þeir eiga ekki. Stjórnsýslan gæti snúið sér að einhverju sem kann að skipta máli í raunveruleikanum en gæti hætt að vinna dag og nótt að inngöngu í samband sem meirihluti þingmanna og kjósenda vill ekki ganga inn í. Hundruð milljóna króna, sem verja á í inngöngutilraunirnar myndu sparast. Eitt klofningsmál landsmanna verður tekið úr umræðu að sinni. Kostirnir eru ótalmargir.

En gallarnir? Jú, Samfylkingin missir trúaratriði sitt af dagskrá um nokkurra ára skeið. Þeir sem telja þann „galla“ meira virði en kostina við þessa eðlilegu ákvörðun, ættu… ja hvað á eiginlega að ráðleggja slíku fólki?

Ekki er nokkur vafi á því að vitibornir þingmenn munu, strax og þing kemur saman, leggja fram þingsályktunartillögu um afturköllun inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Jafn augljóst er að sú tillaga verður samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Og þá geta menn snúið sér að mikilvægari hlutum.

Og ef slík tímamótaákvörðun yrði til þess að opna augu víða um heim, hvernig voldug Evrópuríki reyna að fara með þau litlu, með þjósti þegar að rökin eru ekki til, þá gæti þessi væntanlega ákvörðun orðið til þess að rættust áralangir spádómar Baldurs Þórhallssonar: Smáríki geta haft áhrif á Evrópusambandið. Það væri enn einn kosturinn – og ótvíræð sárabót fyrir Samfylkinguna.