Þriðjudagur 19. janúar 2010

19. tbl. 14. árg.

P rófkjörshrina vegna sveitarstjórnarkosninga er nú vítt og breitt um landið. Auglýsingar, bæklingar og önnur kynningarstarfsemi frambjóðenda eru hins vegar afskaplega hófstillt. Almennt efnahagsástand á vafalaust þátt í því en svo hefur ríkið bannað mönnum fjáröflun vegna framboða að verulegu leyti auk þess sem hinir ríkisreknu stjórnmálaflokkar leggja frambjóðendum í prófkjörum sínum ýmsar línur í þessum efnum.

Þannig hafa til að mynda engar auglýsingar frá frambjóðendum sést í sjónvarpi eða útvarpi. Og þó. Þótt ríkið hafi svo gott sem bannað mönnum að kynna sig með auglýsingum lætur jafnréttisstofa ríkisins þau skilaboð dynja á mönnum í sjónvarpi að kjósa beri konur til forystu í sveitarstjórnum. „Kjósum konur til forystu í sveitarstjórnum,“ segir óhikað í þessum skilaboðum frá ríkisvaldinu.

Ríkið er að taka erlend lán í ótrúlegum mæli. Meðal annars til að fjármagna mikinn halla á rekstri sínum. Engu að síður telur það sig hafa efni á að kaupa sjónvarpsauglýsingar af þessu tagi. Erlendum skuldum er velt yfir á framtíðina til að jafnréttisstofa geti auglýst í sjónvarpi með öðru kyninu.