Helgarsprokið 17. janúar 2010

17. tbl. 14. árg.
Ég er einfaldlega bjargfastlega þeirrar skoðunar að við höfum í áratugi gert allt vitlaust sem hægt er að gera í reglum á íslenskum fjármálamarkaði …
– Árni Páll Árnason, „Í Bítið“ á Bylgjunni, 12. janúar 2010.

F yrir hartnær tveimur áratugum, árið 1992, komu EFTA og Evrópusambandið á fót hinu Evrópska efnahagssvæði. Með því fengu Íslendingar aðgang að innri markaði ESB fyrir vörur sínar og þjónustu. Samhliða hófst gegndarlaus innflutningur ýmiss konar stjórnvaldsreglna sem skriffinnar í Brussel keppast við að berja saman. Sumar þeirra hafa orðið til góðs, svo sem þær sem takmarkað hafa möguleika ríkisins til að skipta sér með ríkisstyrkjum af samkeppnisstarfsemi. Líklega hefur þó obbinn af reglugerðarfjallinu orðið til trafala, hér á landi sem annars staðar. Ástæðurnar eru margar.

„Sérhver gerð og tilskipun ESB um fjármálastarfsemi hefur samviskusamlega verið tekin upp hér á landi, gjarnan nær orðrétt, í íslenskar reglugerðir. Íslenskum lögum hefur ýmist verið breytt þeim til aðlögunar eða einfaldlega felld úr gildi og ný sett í staðinn sem betur passa hinu evrópska regluverki. Hér á landi hafa því, í nær tvo áratugi, gilt lög Evrópusambandsins um fjármálastarfsemi.“

Einna helst hefur hið gífurlega umfang regluverks Evrópusambandsins einfaldlega reynst Íslendingum ofviða. Reglugerðarflóð, sem mannmargar þjóðir, þar sem stór hluti manna hefur hrifist af sósíalisma, skemmta sér við að velta sér upp úr, til dæmis Frakkar, hreinlega kaffæra lítil ríki. Vegna þess hve þrýstingur á reglugerðarstúti ESB er hár er ekki vinnandi vegur fyrir fámenna þjóð að reyna meira en að komast yfir að þýða og innleiða ósköpin, jafnan hrá og án mikillar skoðunar. Að vísu eru þær framkvæmdanefndir („comitology committees“) sem beinlínis stýra setningu og innleiðingu réttarreglna sambandsins, „einungis“ um 270 talsins. Hins vegar er daglegt viðhald reglugerðarbálksins að miklu leyti í höndum sérfræðinganefnda („expert groups“), en þær eru um 1.000 talsins. Þá eru ótaldar hundruð annarra nefnda, starfshópa og teyma sem koma að því að semja ósköpin.

Því hefur það æxlast svo að stærri aðildarþjóðir sambandsins hafa fulltrúa í allflestum undirbúningsnefndum þeirra reglugerða sem settar eru á vegum þess; gera þar fyrirvara og ná fram breytingartillögum; samræma vinnu í heimaríkinu þessu undirbúningsstarfi þar til viðkomandi reglugerð sér dagsins ljós og taka loks gerðina og aðlaga landsrétt sinn að henni. Fámennari þjóðirnar, svo sem Malta, Lúxemborg og Kýpur-og jafnvel Eystrasaltslöndin-verða hins vegar að gera sér að góðu að hafa lítil sem engin áhrif á flest í þeim flaumi sem fram streymir frá Brussel, en láta sér þess í stað nægja að reyna að ná að innleiða sem mest af flaumnum. Slíkt hefur gengið misjafnlega vel, en Ísland hefur getað státað sig af að vera þokkalega duglegt við stimplunina og mælist þar jafnan þar á pari við Breta og Belga með um 99% af tilskipunum ESB „réttilega“ innleiddar.

Einn hluti reglugerðarbáknsins lýtur að fjármálastarfsemi. Þar hefur Evrópusambandið svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja og íslensk stjórnvöld hafa samviskusamlega innleitt flauminn. Sérhver gerð og tilskipun ESB um fjármálastarfsemi hefur samviskusamlega verið tekin upp hér á landi, gjarnan nær orðrétt, í íslenskar reglugerðir. Íslenskum lögum hefur ýmist verið breytt þeim til aðlögunar eða einfaldlega felld úr gildi og ný sett í staðinn sem betur passa hinu evrópska regluverki. Hér á landi hafa því, í nær tvo áratugi, gilt lög Evrópusambandsins um fjármálastarfsemi.

Í þessu ljósi mætti af tilvitnuninni hér í upphafi ætla að Árni Páll Árnason sé annað af tvennu: Gersamlega mótfallinn hinu evrópska regluverki sem við höfum svo samviskusamlega tekið upp á sviði fjármálaréttar. Eða þá algerlega ófróður um hvernig löggjöf á fjármálamarkaði er háttað. Hið síðara væri með ólíkindum eftir alla umræðuna undanfarið um mögulegt greiðsluþrot íslenska ríkisins vegna tilskipunar ESB um tryggingasjóði innlána. Þar sem Árni er hins vegar einn helsti talsmaður þess að Íslendingar verði dregnir, með góðu eða illu, inn í Evrópusambandið og var þar að auki helsti lögfræðilegi aðstoðarmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar þáverandi utanríkisráðherra þegar Íslendingar undirrituðu samninginn um EES árið 1992 og gengust þar með undir fargið er með sanni hægt að segja að ekki sé nokkur glóra í málflutningi hæstvirts félagsmálaráðherra. Í það minnsta er þetta ekki burðugur málflutningur talsmanns þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Það skyldi þó aldrei vera að einhverjir í Samfylkingunni séu að átta sig á að hið ruglingslega reglubákn ESB um fjármálastarfsemi hafi ekki verið Íslendingum mikil stoð í bankahruninu? Nei, það er sennilega til of mikils mælst.