Laugardagur 16. janúar 2010

16. tbl. 14. árg.

Veit einhver hvers vegna stjórnarandstöðuleiðtogarnir láta kalla sig reglulega niður í stjórnarráð til að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur?

Núverandi ríkisstjórn hefur aldrei leitað eftir samráði við nokkurn, nema þegar hún er komin út í horn og vill að einhver bjargi sér.

Síðasta vetur varð Framsóknarflokknum það á að leiða vinstriflokkana til valda. Fyrir það fengu framsóknarmenn ekkert, nema reyndar blóðugar skammir einu sinni þegar einn þingmaður þeirra vogaði sér að vilja skoða stjórnarfrumvarp í þingnefnd sem tafði afgreiðslu þess um einn fund. Fram hefur komið að stjórnarflokkarnir lugu að framsóknarmönnum um Icesaveánauðar-viðræður sem fram fóru að tjaldabaki, þegar Framsóknarflokkurinn varði fyrir þá minnihlutastjórnina. Eftir kosningar, þegar ekki var lengur þörf á Framsóknarflokknum, var hætt að tala við hann.

Í sumar kom í ljós að Steingrímur J. Sigfússon næði ekki að þvinga fyrra Icesaveánauðarfrumvarpi sínu fyrirvaralaust í gegnum alþingi. Þá þáði hann að stjórnarandstaðan ynni að því að semja fyrirvara við frumvarpið, svo tryggja mætti ferð þess í gegnum þingið og þar með að Samfylkingin henti Steingrími ekki úr ráðherrastóli. Um leið og það var frágengið héldu vinstrigrænir flokksfund þar sem Steingrímur J. Sigfússon hélt aðalræðuna sem fjallaði um fátt annað en Sjálfstæðisflokkinn, í þakklætisskyni fyrir fyrirvarana, sem urðu lífgjöf ríkisstjórnarinnar.

Þegar frumvarpið var komið í gegn, með fyrirvörunum, var strax hætt að tala við stjórnarandstöðuna. Þegar sjálfstæðismenn settu fram skoðun á síðara Icesaveánauðar-frumvarpinu, sagði Steingrímur J. Sigfússon að þeir ættu að þegja, þeir hefðu verið kosnir frá völdum. Og enginn „fréttamaður“ benti honum á að Sjálfstæðisflokkurinn fékk fleiri atkvæði og fleiri þingmenn en vinstrigrænir.

Icesaveánauðar-frumvarpinu síðara var þjösnað í gegnum þingið og ekkert gerð með orð stjórnarandstöðunnar. Þegar málið strandaði hins vegar á Bessastöðum, og í ljós kemur að Ísland nýtur mun meiri stuðnings erlendis en ríkisstjórnin vildi láta – og hafa lögfræðileg rök Íslands þó enn hvergi verði kynnt erlendis – er ríkisstjórnin aftur komin í stórkostleg vandræði.

Og birtist þá ekki aftur á tröppum stjórnarráðshússins, sama björgunarsveitin og venjulega. Hjálparsveit stráka, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mætt til að leggja jakkana sína einu sinni enn yfir pollinn, svo vinstristjórnin komist yfir þurrum fótum.