Föstudagur 15. janúar 2010

15. tbl. 14. árg.

S teingrími J. Sigfússyni leiddist ekki á skattadegi Deloitte. Hann lék á alls oddi og reytti af sér skrýtlurnar. Að vísu kom í ljós að ýmis gullkornanna voru ekki sprottin úr svörtum húmor ráðherrans heldur hnutu fram í barnslegri einlægni. Til dæmis svaraði hann þeirri spurningu, hvort landsmenn mættu eiga von á frekari „breytinga á skattkerfinu“ en þær taumlausu skattahækkanir sem þegar hafa verið lagðar á landsmenn, með því að vitna í fleyg ummæli forseta Íslands „You ain’t seen nothing yet!“

Þar hafið þið það.. Þetta vara bara byrjunin! Steingrímur var bara rétt að hita upp. Bíðið bara og sjáið hvers konar hörmungar og horfelli þessi ríkisstjórn ætlar að kalla yfir ykkur. Það verður sko alvöru.

Einhvern hefði mátt ætla að íslenskir stjórnmálamenn myndu láta vera að henda þessi ummæli á lofti, svona miðað við hversu háðuglega útreið forsetinn hefur fengið eftir að hafa klykkt út með þessu gullkorni. Reyndar sagðist forsetinn hafa tekið frasann upp úr „Hollywood myndum“, en ætlaði líklega frekar að vísa til þess sem frægastur er fyrir ummælin, annars og töluvert farsælli forseta, Ronald Reagan.

En svo kom að Steingrími að reyna að rökstyðja hinar miklu skattahækkanir sínar. Og þá fór skrýtlunum að fækka.

Fyrst reyndi hann að vísu að létta brúnina á skeptískum áheyrendum sínum með því að vísa til hæstaréttardómarans bandaríska, Oliver Wendell Holmes, sem árið 1927 reit í áliti Hæstaréttar Bandaríkjanna þá skoðun sína að „skattar væru það gjald sem þyrfti að greiða fyrir siðað samfélag“. Til þess að setja þessa skoðun Holmes í samhengi er rétt að rifja upp að Holmes stóð alla tíð samviskusamlega vörð um ríkið, tekjuöflun þess og völd. Taldi hann rétt og eðlilegt að ríkið ráðskaðist með bjánana, almúgann, einkum ef viðkomandi hefðu þegið bætur frá ríkinu. Sama ár og hann hafði uppi fyrrnefnd orð um aðgöngumiðann að siðuðu samfélagi reit hann í öðru áliti réttarins eftirfarandi niðurstöðu um rétt ríkisins til að gelda þroskaheftar konur: „We have seen more than once that the public welfare may call upon the best citizens for their lives. It would be strange if it could not call upon those who already sap the strength of the State for these lesser sacrifices, often not felt to be such by those concerned, in order to prevent our being swamped with incompetence. It is better for all the world, if instead of waiting to execute degenerate offspring for crime, or to let them starve for their imbecility, society can prevent those who are manifestly unfit from continuing their kind. The principle that sustains compulsory vaccination is broad enough to cover cutting the Fallopian tubes. … three generations of imbeciles are enough.“

Hér talar hinn sanni varðmaður Ríkisins. Ekki leiðum að líkjast fyrir Steingrím. Forystumönnum vinstri manna virðist vera fyrirmunað að vitna í ummæli bandarískra stórmenna án þess að útkoman verði sárpínleg. Ef til vill væri nær lagi að þeir vitnuðu til gamalla skoðanabræðra sinna í austri?

En Steingrímur Sigfússon átti í pokahorninu ein rök enn fyrir hærri sköttum: Frekari hækkanir væru einfaldlega nauðsynlegar þar sem „skattstofnar stæðu ekki lengur undir tekjuþörf ríkisins“. Og hvað ætli það þýði nú, á íslensku, þegar ríkið segist verða að hækka skatta því „skattstofnar stæðu ekki lengur undir tekjuþörf ríkisins“? Jú, svo hinu knúsaða stofnanamáli sé snarað á mannamál þá er talsmaður ríkisins að segja að fyrst að tekjurnar dugi ekki lengur fyrir útgjöldunum þá þurfi einfaldlega að hækka tekjurnar. Ekki orð um að lækka gjöldin. Ekki orð um að á sama tíma og ráðherrann hlær að skattgreiðendum og segir þeim „you ain’t seen nothing yet“ þá er hlutur ríkisins af þjóðarútgjöldum orðinn meðal þess hæsta sem gerist innan OECD. Hvernig ætli færi fyrir þeim áheyranda ráðherrans sem léti sér detta í hug að haga sér þannig? „Kæri vinnuveitandi: Tekjur mínar standa ekki lengur undir útgjöldunum og því skalt þú gjöra svo vel og hækka launin mín“