Fimmtudagur 14. janúar 2010

14. tbl. 14. árg.

R áðherrar ríkisstjórnarinnar segjast hafa kynnt erlendum ráðamönnum um hvað deilan kennd við Icesave snýst. Steingrímur fjármálaráðherra segist hafa farið rúnt um Norðurlöndin nýlega og átt þar fundi með forystumönnum. Össur hefur að eigin sögn legið í símanum. Jóhanna dekkar Lækjargötu milli Hverfisgötu og Bankastrætis.

Þrátt fyrir allt þetta kynningarstarf íslenskra stjórnvalda er það svo merkilegt að viðmælendur þeirra, stjórnmálamenn sem aðrir, virðast aldrei telja nokkra lagalega óvissu um málið. Það eina sem þeir hafa að segja er Íslendingar verði að standa við skuldbindingar sínar. Það er hér um bil það sama og íslenskir ráðherrar hafa fram að færa: Við munum standa við skuldbindingar okkar.

Á meðan íslenskir ráðherrar hafa ekkert annað fram að færa en merkingarleysuna um “skuldbindingar okkar” er auðvitað ekki við öðru að búast en að erlendis telji menn að Íslendingar eigi skuldir ógreiddar.