Miðvikudagur 13. janúar 2010

13. tbl. 14. árg.

S íðustu daga hefur farið fram nokkur umræða um nauðsyn þess að stjórnvöld miðli hlutlausum upplýsingum um þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-ánauðina. Hefur ýmislegt verið lagt til í þeim efnum, allt frá því að fá svonefndan utanaðkomandi aðila til að sjá um kynningarefni til þess að setja á legg sérstaka ríkisstofnun um málið.

Það hefur hins vegar ekki hvarflað að nokkrum manni að Ríkisútvarpið geti haft nokkru hlutverki að gegna í þessu sambandi. Hver vegna ætli það sé? Þó er sagt í lögum um Ríkisútvarpið að því beri að gæta hlutleysis.

Andríki hefur undanfarna daga birt þessa tilkynningu eftir kvöldfréttir Ríkisútvarpsins og fyrir Spegilinn: „Samkvæmt lögum bera Íslendingar enga ábyrgð á Icesave-reikningunum. Svokallaðar skuldbindingar okkar eru ekki til.“ Það eru stuðningsmenn félagsins sem standa undir þessum auglýsingum með frjálsum framlögum sínum.

Andríki greiðir Ríkisútvarpinu yfir 1.000 krónur fyrir hvert orð í þessari tilkynningu. Stuðningsmenn Icesave-ánauðarinnar hafa hins vegar frétt spil í Speglinum og fréttatímum Ríkisstjórnarútvarpsins. Ef svo ólíklega vill til að í útsendingu kemst einhver sem vill malda í móinn og halda hagsmunum Íslands til haga sleppa umsjónarmenn Spegilsins sér gjörsamlega. Hið tilgerðarlega yfirlæti sem einkennir Spegilinn hverfur í æsingu og yfirgangi umsjónarmanns.

R eykjavíkurborg býður borgarbúum upp á sérstaka bláa sorptunnu til viðbótar þeirri hefðbundnu svörtu. Í bláu tunnuna geta menn sett dagblöð og annað pappírsrusl. Borgin sendir bíla sérstaka ferð eftir ruslinu úr þessum tunnum. Hæglega mætti spara peningana og orkuna sem fer í að búa þessar tunnur. Ekki síður mætti spara það fé og orku sem spanderað í að sækja blátunnurnar í sérstakri ferð. Ekkert er því til fyrirstöðu að setja pappírsruslið í svörtu tunnurnar með öðru rusli. En umhverfistrúarbrögðin banna það. Menn verða að taka grænu skrefin til að vera hólpnir.

Undanfarin ár hefur borgin einnig sótt jólatré borgarbúa að jólahaldi loknu. Jólatré fara hvorki vel í ruslatunnum né einkabílum. En nú er borgin að spara svo þessi þjónusta hefur verið lögð af og ekki ætlar Vefþjóðviljinn að andmæla því. Hann langar bara að spyrja hvers vegna borgir gerir sér sérstaka ferð til að sækja papparusl í blátunnum sem kæmist svo hæglega í hefðbundnu tunnurnar en lætur borgarbúa sjálfa um að troða jólatrjám í bíla sína og aka út á Sorpu?

Það er hins vegar er ekki mikið mál að saga venjulegt jólatré niður í búta sem komast í venjulega ruslatunnu. Það er sennilega fljótlegra en að þrífa barrnálarnar úr bílnum eftir ferð á Sorpu.