Þriðjudagur 12. janúar 2010

12. tbl. 14. árg.

H ún malar óstöðvandi áfram, áróðursvélin í Efstaleiti, sem kallar sjálfa sig „fréttastofu“.

Í Kastljósi gærkvöldsins var rætt við þrjá ólíka einstaklinga um Icesaveánauðar-málið. Hagfræðing, lögfræðing og sálfræðing. Hagfræðingurinn, Friðrik Már Baldursson, sagðist ekki vita neitt um það hvort Íslendingum bæri að borga Icesave-skuldir Landsbankans, það væri ekki á sínu sérsviði, en þuldi svo upp ókostina sem hann sagðist sjá við það að íslenskir skattgreiðendur splæstu þessu ekki á breska og hollenska ríkið. Lögfræðingurinn, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, fór yfir það með afar skýrum og rökföstum hætti að nákvæmlega engin ríkisábyrgð væri á Icesave-skuldunum, sem er auðvitað aðalatriði málsins. Sálfræðingurinn velti svo vöngum yfir öðrum atriðum.

Í 10-fréttum Ríkissjónvarpsins , hver ætli hafi svo verið fyrsta frétt? Jú, auðvitað upptalning Friðriks Más á þeim ókostum sem hann taldi geta fylgt því að íslenska ríkið tæki ekki á sig Icesave-skuldirnar. Á skoðanir annarra þátttakenda í Kastljósinu var ekki minnst einu orði. Á forsíðu textavarpsins stóð svo tímunum saman með stóru letri: „Staðan gæti versnað dragist Icesave“.

Auðvitað kemur þetta fréttamat Ríkisútvarpsins ekki á óvart. En það er ekki allt sagt.

Engin frétt var í ummælum Friðriks Más, eins og „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins veit mætavel sjálf. Þessi skoðun Friðriks Más, sett fram í beinu framhaldi af yfirlýsingu hans sjálfs um að hann hafi ekki hugmynd um hvort Íslendingum beri að borga grænan eyri, sætir nefnilega engum tíðindum.

Ekki er lengra síðan en í síðustu viku að sami Friðrik Már var gestur Icesave-þáttarins „Spegilsins“ í Ríkisútvarpinu. Þar sparaði hann ekki þulurnar um hvernig allt færi norður og niður ef Icesaveánauðin yrði ekki samþykkt. Þetta þótti Ríkisútvarpinu svo markvert að það lét ekki nægja að birta upptalninguna í Speglinum heldur var gerð sérstök frétt um hana í kvöldfréttum.

Nú kemur sami Friðrik Már í Kastljósið og fer með sömu þulu. Og aftur finnst áróðursstöðinni í Efstaleiti þulan jafn fréttnæm og vera það eina fréttnæma úr þættinum. Skýr rökstuðningur hæstaréttarlögmannsins fyrir því að engin greiðsluskylda hvíli á Íslandi þótti að minnsta ekki mjög fréttnæmur í samanburði við þau tíðindi að Friðrik Már hefði farið aftur með sömu ræðuna og hann hafði gert í Ríkisútvarpinu vikunni áður.

Nú hefði mátt segja að skoðanir Lárusar, jafn ágætar, áríðandi og vel rökstuddar sem þær eru, hefðu ekki verið stórfrétt, því hann hefur kynnt þær áður í skýrum og mjög fróðlegum greinum sem hann hefur skrifað ásamt Stefáni Má Stefánssyni lagaprófessor í Morgunblaðinu. En hvað á þá að segja um það fréttamat að birta sem fyrstu frétt, sömu upptalningu Friðriks Más Baldurssonar og hafði bæði verið í Spegli og kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku? Auðvitað ræður þar ekki annað fréttamat en það, sem metur fréttir eftir því hvernig þær duga þeim málstað sem „fréttastofan“ helgar sig þessar vikurnar.

Svona lætur „fréttastofan“ núna. Hvernig verður hún þegar nær dregur þjóðaratkvæðagreiðslunni? – Ef forystumenn stjórnarandstöðunnar verða þá ekki búnir að semja ríkisstjórnina frá henni.