S amkvæmt fréttum eru Steingrímur J. Sigfússon og Ólafur Ragnar Grímsson hættir að talast við.
Lái þeim hver sem vill.
Þ eir mega eiga það, íslenskir ráðherrar og skósveinar þeirra, að þeir sofa ekki á verðinum. Allt frá því fyrra Icesaveánauðar-frumvarp fjármálaráðherra kom fram, hafa þeir gætt þess að ekkert, sem væri Íslandi í hag í málinu, fái að standa heilan dag ómótmælt. Í gær bættist franskur Evrópuþingmaður, einn þeirra sem kom að gerð tilskipunar Evrópursambandsins um ábyrgð heimaríkis á bönkum, í þann fjölmenna hóp sem segir að Íslendingum beri ekki að greiða breska og hollenska ríkinu neitt vegna Icesave-skulda Landsbankans. Strax um kvöldið var breski landsstjórinn á Íslandi, Steingrímur J. Sigfússon, kominn í sjónvarpsfréttir og gerði eins lítið úr þessari frétt og hann gat, rétt eins og hann hefur brugðist við öllu öðru sem styður íslenska hagsmuni í málinu.
Frá því Steingrímur J. Sigfússon lagði fram fyrra Icesaveánauðar-frumvarp sitt, hefur verið bent á ótal atriði sem styðja mjög eindregið að engin greiðsluskylda hvíli á Íslandi. Öllum þeim hefur ríkisstjórnin hafnað samstundis. Nú fara íslenskir ráðherrar um heiminn og segja strax við lendingu á hverjum flugvelli að auðvitað muni Íslendingar „standa við skuldbindingar sínar“. Svo er einhver hissa á því að málstaður Íslands njóti lítils skilnings erlendra ráðamanna. Það er auðvitað ekki undarlegt, þegar enginn hefur sagt þeim að Ísland hafi málstað.
F ram kom í lítilli frétt fyrir helgi að Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem að sögn er þingmaður Samfylkingarinnar, hefði skráð sig í einhvern hóp á vefsíðunni Fassbók, þar sem þess væri krafist að Ólafur Ragnar Grímsson léti þegar af embætti forseta Íslands.
Að sjálfsögðu hafa fréttamenn ekki kannað þetta mál frekar. Samkvæmt stjórnarskránni getur alþingi leyst forseta Íslands frá embætti. Til þess þarf vissulega mjög aukinn meirihluta, en þetta vald er engu að síður hjá alþingi og síðar þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hver og einn alþingismaður getur lagt fram tillögu um þetta. Enginn fjölmiðill spyr þessa Jónínu Rós hvort hún ætli að leggja slíka tillögu fram.
H vernig ætli menn létu ef forystumenn í einhverjum öðrum flokki en núverandi stjórnarflokkum hefðu talað um forseta Íslands eins þar á bæ hefur verið gert undanfarið? Ætli slíku hefði verið mætt með stóryrðum um að menn væru veikir á geði, valdasjúkir, hötuðu forsetann, eða hvað það nú er, sem álitsgjafar hafa fengið klapp á bakið fyrir að segja um fólk í öðrum flokkum?
Og þetta leiðir hugann að því stóra máli sem fréttamenn hafa enn ekkert gert með, hversu lengi sem þeir geta leyft sér það. Kvöldin eftir að forseti Íslands hafði tilkynnt að hann hefði neitað að staðfesta Icesaveánauðar-lögin, var mikill lestur í fréttatímum. Fréttamenn þuldu þar upp bréf sem þeir sögðu forsetanum hafa borist frá Jóhönnu Sigurðardóttur og annað frá Steingrími J. Sigfússyni, þar sem taldar voru upp skelfingarnar sem yrðu, ef forsetinn staðfesti ekki lögin þeirra. Ekki fór á milli mála að þetta var gert til að sýna hversu ábyrgðarlaus maður forsetinn væri og hversu léttvægir honum þættu grafalvarlegir þjóðarhagsmunir. Var þetta greinilega gert til að draga úr áliti forsetans, sem ekki var fallega gert, og draga úr stuðningi við þá ákvörðun sem hann hafði tilkynnt. Á meðan lét Ríkisútvarpið svo Gallup mæla stuðning fólks við ákvörðunina.
Ekki þarf svo að hafa mörg orð um það hvernig efni bréfanna leikur málstað og álit Íslands erlendis. Bréfritarar telja greinilega að Bretar og Hollendingar hafi öll tromp á hendi og Íslendingar verði að sitja og standa eins og þeim þóknist. Erlendir menn sem heyra lesturinn, og frétta að hann komi frá íslenskum ráðherrum, halda samstundis að málstaður Breta og Hollendinga sé alkunn sannindi en Íslendingar eigi engan málstað, engin sjónarmið, engar mótbárur, enga von og engin úrræði nema að sýna næga undirgefni.
Hvaðan fengu fréttamenn bréfin? Á blaðamannafundi sagði forsetinn að hann hefði í raun ekkert bréf fengið frá Steingrími. Það sem hefði verið lesið hefði hins vegar verið í samræmi við málflutning Steingríms á einkafundi þeirra og þar hefði Steingrímur verið með minnispunkta. Augljóst virðist að gögn fréttamanna Ríkisútvarpsins eru ekki frá forsetanum komin. Hverjum þá? Hvernig vissu fréttamenn af bréfi Jóhönnu og persónulegum minnispunktum Steingríms? Getur verið að fréttamenn hafi einfaldlega tekið við þeim hjá ráðherrunum og sest við hljóðnemann og hafið lesturinn, en ekki áttað sig á að mun fréttnæmara væri að forsætis- og fjármálaráðherra væru að reyna að grafa stórkostlega undan þjóðhöfðingja landsins á örlagatímum með því að leka gögnum, og það eins þó birting gagnanna væri til þess fallin að stórskaða samningsstöðu Íslands og álit þess út á við?
Auðvitað mega menn gagnrýna forseta Íslands þegar þeir það vilja, stjórnmálamenn og aðrir. Oft hefur verið rík ástæða til þess. En hér var eitthvað allt annað á ferð. Hvaða málefnalega tilgangi gat það þjónað að panta upplestur á bréfum og minnispunktum ráðherranna í útvarpið, sama dag og daginn eftir að forseti Íslands tilkynnti ákvörðun sína? Þegar haft er í huga hvaða mynd efni bréfanna og minnispunktanna gaf af málstað Íslands, nú þegar tvö erlend ríki sækja að því, þá hljóta fréttamenn að spyrja ráðherrana hvort þeir hafi haft eitthvað með það að gera að fréttamenn voru komnir með bréfin í hendur.