Helgarsprokið 10. janúar 2010

10. tbl. 14. árg.

R íkisútvarpið hamast eins og það getur í Icesave-málinu, til stuðnings málstað ríkisstjórna Bretlands, Hollands og Íslands, sem munu veru einu aðilar veraldar sem telja að íslenska ríkinu beri að borga Icesave-skuldir Landsbanka Íslands hf. Í fyrradag fékk Indriði frí frá þættinum en Illugi Gunnarsson alþingismaður var þar kallaður fyrir. Þessar samræður áttu sér stað í þættinum og segja svolítið um andrúmsloftið sem ríkir þegar fréttaskýringar Ríkisútvarpsins eru unnar:

Gunnar Gunnarsson, fréttamaður Spegilsins: Fyrir örfáum árum þá var hér ríkisstjórn sem að viðhafði engar efnahagslegar varnir hér á landi og ábyrgir bankamenn stofnuðu til þessar skuldir í útlöndum. Situr ekki þjóðin uppi með þetta, bara sem afleiðingu af óstjórn?
Illugi Gunnarsson alþingismaður reynir að svara: „Í fyrsta lagi þá er alveg rétt sem þú segir þetta eru bankamenn og einkafyrirtæki sem stofna til þessara skulda…“
Gunnar grípur fram í: „í skjóli þeirra laga sem stjórnmálamenn settu!“
Illugi Gunnarsson: „Já hér er um að ræða einmitt evrópskt lagaverk og það kemur einmitt fram, það hefur meðal annars komið fram…“
Gunnar grípur fram í: „sem að fyrri ríkisstjórn samþykkti“.
Illugi Gunnarsson: Já þegar við gengum inn í EES á sínum tíma, það eru áratugir síðan.
Gunnar Gunnarsson, fréttamaður Spegilsins: „Heldur ekkert fjármálaeftirlit og ekkert eftirlit úr seðlabankanum. Við bara sitjum uppi með þetta vegna slæmra stjórnarhátta!“
Illugi Gunnarsson: „Hér var reyndar auðvitað starfandi fjármálaeftirlit og það var líka starfandi fjármálaeftirlit í Bretlandi og Hollandi og fjármálaeftirlit þessara landa bera líka ábyrgð á þessu máli.“

Það er ótrúlegur misskilningur að hér hafi ekki gilt reglur á fjármálamarkaði. Reglurnar um fjármálamarkaði eru og voru gríðarlegar og höfðu aldrei verið umfangsmeiri en daginn sem íslensku bankarnir hrundu.

Þá er hopað yfir í næsta misskilning. Jú, jú það voru reglur en eftirlitið með þeim skorti. Menn halda því bara blákalt fram að á Íslandi hafi ekkert eftirlit verið með fjármálafyrirtækjum. Þó er það svo að fyrir rúmum áratug var búin til sérstök stofnun, Fjármálaeftirlitið, sem hafði eingöngu það hlutverk. Voru til dæmis eftirlitshlutverk og eftirlitsheimildir Seðlabankans færðar að hluta til Fjármálaeftirlitsins tæpum áratug fyrir bankaþrot. Fjármálaeftirlitið hafði sambærilegar heimildir og fjármálaeftirlit annarra ríkja Evrópu. Fjárframlög til fjármálaeftirlitsins voru aukin verulega ár frá ári. Því til viðbótar voru hér viðskiptaráðuneyti, seðlabanki, innlánstryggingasjóður og samkeppnisstofnun. Einu og hálfu áður en bankarnir urðu afvelta var ákveðið að ráðherra viðskipta sinnti engu öðru en í aldarfjórðung hafði ráðuneytið deilt starfsliði, húsnæði og ráðherra með öðrum ráðuneytum. Fjármálaeftirlit þeirra landa sem íslensku bankarnir störfuðu í höfðu einnig eftirlit með þeim að ógleymdum seðlabanka Evrópu. Það er því erfitt að halda því fram að dregið hafi verið úr eftirliti í aðdraganda bankahrunsins.

Það er ekki að undra að sparifjáreigendur hafi lagt fé sitt í bankana þegar þeir sáu allar þessar virðulegu opinberu stofnanir gefa þeim gæðastimpil.

Það er því alveg fullgild spurning í þessu samhengi hvort fjármálamarkaður án opinbers eftirlits hefði getað endað með meiri ósköpum. Opinbert eftirliti með fjármálamörkuðum virðist fyrst og fremst hafa tvenns konar afleiðingar:

  1. Opinbert eftirlit með fjármálastofnunum dregur úr árvekni fólks og veitir því falskt öryggi.
  2. Opinbera eftirlitið er notað sem tylliástæða til að senda skattgreiðendum reikninginn fyrir afglöpum í bankakerfinu.

Þetta kom svo glöggt fram í Speglinum á föstudaginn þegar Gunnar Gunnarsson tók til óspilltra málanna. Gunnar telur að ríkið beri ábyrgð á öllu því sem fer fram innan lögsögu þess. Hann vill senda lögreglunni reikninginn þegar pörupiltar brjóta rúðu. Hey, lögreglan svaf á verðinum, skattgreiðendur verða að kaupa nýja rúðu. Ekki ætlum við að hlaupast frá skuldbindingum okkar, ha?