Helgarsprokið 27. desember 2009

361. tbl. 13. árg.

V ert er að vekja athygli á tilboði í bóksölu Mises Institute. Allar fáanlegar bækur eftir Ludwig von Mises eru boðnar á 407 dali.

Þar er til að mynda efst á blaði lítið kver frá 1954 The Anti-Capitalistic Mentality þar sem Mises sveigir nokkuð af braut hagfræðinnar og reynir fyrir sér með einhvers konar hversdaglega sálgreiningu á því hví svo margir menntamenn leggi fæð á kapítalismann. Hann bendir á að kapítalistar séu í umræðunni til að mynda oft lagðir að jöfnu við aðal fyrri tíma, en hvað eru menn sem efnast í atvinnurekstri ekki kallaðir, olíufurstar, sægreifar, blaðakóngar, tískudrottningar, majonesprinsessur. Þeir eigi þó fátt sameiginlegt með furstum og greifum fyrri alda. Auður þeirra eigi sér oftast ólíkan uppruna. Aðallinn hafi efnast með valdi, stríðsátökum og skattheimtu. Kapítalistinn efnist hins vegar helst á því að gera öðrum til hæfis.

Mises rekur andúðina á kapítalismanum ekki síst til þess að menn beri sig saman við náungann. Flestir geti fundið eitthvað til að öfundast yfir í lífi næsta manns. Það er þægilegt að skella skuldinni á markaðinn. Þetta eigi ekki síst við um menntamenn sem telji sig eiga betra skilið. 

Í þessum bókastafla, sem telur á fjórða tug rita, eru hins vegar nokkur rit sem eiga sérlega mikið erindi nú um stundir. Það eru ekki síst ritin þar sem því er spáð að á meðan ríkið annist seðlaprentun og reki seðlabanka sem ákveði vexti muni verða til hinar ýmsu verðbólur sem allar springi með vondum áhrifum á hag fyrirtækja og heimila. Þar má nefna The Theory of Money and Credit og The Austrian Theory of the Trade Cycle and Other Essays.

Þetta má til að mynda finna í veigamesta verki Mises, Human Action sem kom út árið 1949 (bls. 793):

Aukning peningamagns í umferð er stærsta bareflið sem stjórnvöld nota á frjálsan markað. Seðlaprentunin er töfrasprotinn sem dregur úr skorti á framleiðsluvörum, lækkar vexti eða lætur þá verða að engu, fjármagnar íburðarmikil opinber verkefni, losar fjármagnseigendur við fjármagn, veitir fyrirheit um eilífa uppsveiflu og gerir hag allra svo miklu betri.

Líkt og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt hafa fáir gagnrýnt seðlaprentunarvald og samtryggingu ríkis og fjármálafyrirtækja af meira kappi en Ludwig von Mises og austurrísku hagfræðingarnir. Þeir gerðu það fyrir Kreppuna miklu og þeir gerðu það fyrir krísuna á síðasta ári. Rökin eru alltaf á sömu leið. Seðlaprentun, lágir vextir og ríkisútgjöld örva efnahagslífið kannski um skamma stund. Fyrr en síðar kemur engu að síður í ljós að fjárfestingar eru gerðar á fölskum forsendum, ríkið hefur afvegaleitt fyrirtækin með niðursettum vöxtum og ríkisútgjöldum. Bólan springur og fyrirtæki og heimili fara í þrot. Það næsta sem gerist er að stjórnvöldin sem kveiktu eldinn bjóða mönnum að dusta af sér öskuna og orna sér við næsta eld. Sem þau hafa kveikt með seðlaprentun, lágum vöxtum og ríkisútgjöldum.

Þetta hafa menn fyrir framan sig hér á landi. Jafnvel þótt ljóst sé að tekjur landsmanna dragist mjög saman er lítið gert til að draga úr útgjöldum ríkisins. Í staðinn eru tekin gríðarlega erlend lán og gengist undir fáránlegar skuldbindingar vegna viðskipta einkafyrirtækis í þeirri trú að annars berist þessi lán ekki hratt og örugglega.