T ékkar drógu það lengur en aðrir að staðfesta stjórnarskrá Evrópusambandsins, „Lissabon-sáttmálann“. Forseti landsins gerði það ekki fyrr en Tékkar höfðu fengið sérstök ákvæði í gildi vegna óuppgerðra mála þeirra og Þjóðverja, eftir síðari heimsstyrjöld.
Við eina stækkun Evrópusambandsins hótaði Liechtenstein að staðfesta ekki stækkun EES-samningsins af svipaðri ástæðu.
Það er alvanalegt að ríki telji sig eiga kröfu á annað ríki. Slíkt veldur hvorugu ríkinu vandræðum og viðskipti ganga greiðlega þrátt fyrir þetta.
Á þessu er ein undantekning: Vegna þess að ríkjum tekst ekki að fá önnur ríki í lið með sér við innheimtu umdeildra skulda, þá nota þau tækifærið ef þau fá neitunarvald við gerð stórsamninga eins og stjórnarskrár Evrópu. Við slíkar aðstæður geta þau ríki, sem telja sig eiga kröfu á önnur, hótað að stöðva allt, ef ekki verði látið undan sérkröfu þeirra.
Þó breska og hollenska ríkið telji sér trú um að þau eigi kröfu á íslenska ríkið, þá mun það engin áhrif hafa á íslenska hagsmuni. Alþjóðaviðskipti munu ganga eins og venjulega. Traust Íslands erlendis verður óbreytt. Hvorki Þýskaland né Tékkland hafa beitt hitt ríkið viðskiptaþvingunum þó mál súdeta-Þjóðverjanna hafi verið óuppgerð í hálfa öld.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að endurskoða efnahagsáætlun Íslands. Lánin frá svokölluðum frændþjóðum eru tekin að streyma í hús. Deilan um Icesave skiptir engu.
Nema hún gæti gert það á einum stað: Það er hugsanlegt að hún spilli fyrir Evrópusambandsumsókn Samfylkingarinnar. Sú er nú ástæðan fyrir því að Samfylkingin og bandingjar hennar, þingmenn Vinstrigrænna, ætla nú að leggja allt að þúsundmilljarða króna skuldbindingu á kynslóðir Íslendinga.
Mikið óskaplega mun sæmilegri hluta þingmanna vinstrigrænna líða illa yfir þessu þegar frá líður. En þá verður seint að iðrast. Þeir hafa aðeins örfáa daga til að taka sönsum.