Mánudagur 28. desember 2009

362. tbl. 13. árg.

Á dögunum ákváðu stjórnvöld að haldið yrði áfram með allan undirbúning vegna álvers í Helguvík. Það er auðvitað ágætt, ef satt reynist að ekki verði allt stöðvað sem eflt gæti íslenskt atvinnulíf, nú þegar stjórnvöld leggja á það síauknar byrðar að nauðsynjalausu. En þessi ákvörðun leiðir hugann að því hversu óendanlega lítið það er sem þingmenn vinstrigrænna fá fyrir beygingar sínar og bukt í stjórnarráðinu.

Þingmenn vinstrigrænna, og þannig í raun atkvæðaseðlar kjósenda vinstrigrænna, eru miskunnarlaust notaðir af krötum til að knýja fram þau mál sem kratar einir styðja. Þingmenn vinstrigrænna eru barðir til að samþykkja inngöngubeiðni í Evrópusambandið, sem leiðir til afsals fullveldis landsins, þingmenn vinstrigrænna eru neyddir til að samþykkja hundraða milljarða yfirtöku skulda einkafyrirtækis, sem leiðir til versnandi lífskjara vinnandi fólks, þingmenn vinstrigrænna verða meira að segja þvingaðir til að sjá til þess að álver geti risið á Suðurnesjum, með öllum þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar verða til þess að álverið, nú eða annar orkufrekur iðnaður á svæðinu, mun þurfa.

Og fyrir þetta fá þeir ekkert, annað en að þeir geta sagt við sjálfa sig að það skuli aldrei verða þeim að kenna ef „fyrsta hreina vinstristjórnin“ fellur. Það eina sem vinstrigrænir hafa ekki gefið eftir, nú þegar aðeins rúmt hálft ár er liðið frá kosningum, er að hugsanlega tekst þeim að stöðva byggingu álvers á Bakka.

Þegar þingmenn vinstri grænna verða gamlir, og sitja í landinu sem þeir gerðu meira en nokkrir aðrir til að draga niður, og ræða við barnabarnabörnin um lífsstarfið þá verður samtalið svona:

– Jú Rútur Védísar- og Jóhamarsson minn, hún langamma þín var nú einu sinni ung og þá var hún nú maður með mönnum, sat meira að segja á alþingi og það á þeim dögum sem alþingið okkar var ekki bara ráðgefandi til sambandsþingsins í Brussel. Hún var meira að segja stjórnarþingmaður í eitt kjörtímabil, hugsaðu þér það.

– Er það langamma? Var það ekki góð ríkisstjórn?

– Jú heillin mín, hún þurfti sko að taka til hendinni eftir íhaldið, það get ég sagt þér. Við byrjuðum á því að samþykkja að ganga í Evrópusambandið, til að tryggja sambandið við kratana, Steingrímur stakk upp á því, svo létum við mann, sem mig minnir að heiti Össur, semja um inngönguna. Steingrímur sagði að samningarnir yrðu glæsilegir, svo við gerðum það, og þá fór fullveldið að vísu, ég segi þér seinna hvað það var, en við máttum auðvitað ekki láta fyrstu hreinu vinstristjórnina falla.

– Vildir þú ganga í Evrópusambandið langamma?

– Neinei heillin mín, en áttum við að láta fyrstu hreinu vinstristjórnina falla? Það næsta sem við gerðum skiptir þig nú líka máli ljúfurinn, þú veist að pabbi þinn og mamma og Hörn Ilmur systir þín borga mánaðarlega svolitla fjárupphæð til útlanda, það er til að borga skuld Landsbankans.

– Af hverju eru þau að borga skuld Landsbankans?

– Ja, þau hefðu auðvitað ekki þurft að gera það, en hún langamma þín ákvað það. Auðvitað vildi ég það ekki, en ég vildi nú ekki heldur að fyrsta hreina vinstristjórnin félli. Steingrímur, manstu ekki eftir honum, jæja hvað um það, hann Steingrímur sagði líka að það væri nauðsynlegt og hann var nú formaður og svona, þannig að ég samþykkti þetta og þess vegna munt þú bráðum byrja að borga þessa skuld. Æ ég raunar hálfsé eftir þessu, ef ég á að segja þér alveg eins og er.

– En langamma, hvað gerði þessi stjórn sem hjálpar okkur?

– Ja hún leyfði að vísu byggingu álvers á Suðurnesjum og þaðan fáum við gjaldeyri og Reginn Mosi frændi þinn vinnu, en ég var nú ekki hrifin af því. Það eyðilögðust líka margir fallegir fossar og hverasvæði við það, en Steingrímur sagði að við yrðum að samþykkja þetta því annars gæti fyrsta hreina vinstristjórnin fallið.

– En langamma, hvers vegna þurfti þessi hreina vinstristjórn endilega að lifa?

– Jú það skal ég segja þér heillin mín, með þessum fórnum, sem voru auðvitað erfiðar og sársaukafullar eins og Steingrímur sagði svo oft, þá tókst okkur að hindra atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Hugsaðu þér, það bjó fullt af fólki þarna norðurfrá í þá daga, allt árið meira að segja. Þannig að þetta var allt þess virði, þó það væri erfitt.

– Ha, er það allt og sumt?

– Ja þetta er nú ekkert lítið, og jú bíddu nú hægur, ég man nú ekki hvort við kláruðum það, en við vorum að minnsta kosti farin að tala alvarlega um að taka upp kynjaða hagstjórn. Þetta var ágætis stjórn já já heillin mín.

– Hvað er kynjuð hagstjórn?

– Æ ég man það ekki alveg, það er eitthvað voða sniðugt. Steingrími datt þetta í hug. Ég þarf endilega að segja þér af honum Steingrími, það var sko karl í krapinu. Sá tók nú til eftir íhaldið.