Þriðjudagur 24. nóvember 2009

328. tbl. 13. árg.

Í fyrrahaust mun JP Morgan hafa ráðið ríkisstjórninni að skilja útlán gömlu bankana til íslenskra fyrirtækja eftir í þrotabúum þeirra en færa aðeins innlánin yfir í nýja starfhæfa banka. Því miður var ekki farið að þessum ráðum. Útlánin voru færð yfir í nýju bankana þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna sitja gráir fyrir járnum með sínar meiningar.

Ef útlán til fyrirtækja væru í þrotabúum gömlu bankanna væri ekki verið að ræða örlög skuldanna og skuldaranna í pólitískum bankaráðum, bloggsíðum, Silfri Egils og Speglinum með tilheyrandi skítkasti og sleggjudómum heldur í Íslandsdeildum Deutsche Bank og annarra erlendra fjármálafyrirtækja sem lögðu til hráefnið í íslensku eignabóluna og eiga þessar kröfur á íslensku fyrirtækin. Í öllu talinu um flónsku íslenskra bankamanna mætti stundum geta þess að þeir voru ekki einir á báti.

Það gleymist nefnilega jafnan að stór hluti fjármunanna sem notaðir voru til að sprengja upp verð á hlutabréfum og fasteignum á Íslandi kom úr virtum erlendum fjármálafyrirtækjum en stærstu seðlabankar heimsins höfðu um árabil boðið þeim fjármagn að vild á mjög lágum vöxtum. Þau eiga auðvitað sjálf að greiða úr þeim vandræðum sem fylgja þessum lánum í yfirskuldsettum fyrirtækjum hér á landi. Íslenskir pólitíkusar eiga ekkert erindi í það verkefni.

Annar galli á því að færa útlánin yfir í nýju bankana er sá að íslenska ríkið þurfti að semja um verð á þeim við erlendu kröfuhafana. Og menn geta rétt ímyndað sér hver samningsstaðan er þegar menn eru búnir að ræna einhverju og vilja að því búnu fá að semja um verð á ránsfengnum.

Þessar skuldir einkafyrirtækja við gjaldþrota bankana koma íslenska ríkinu og íslenskum skattgreiðendum ekki við. Ekki frekar en skuldir bankanna við fjármagnseigendur í Bretlandi og Hollandi.

ÍÍ gær var en á ný reynt að vekja athygli ríkisstjórnarinnar á því að verði neyðarlögunum frá síðasta hausti hnekkt fyrir dómsstólum muni innistæður færast aftar í kröfuröð. Það mundi hafa þau áhrif að minna fengist upp í Icesave skuldir Landsbankans við innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi en ráð er fyrir gert.

Samfylkingin og vinstrigrænir hyggjast leggja Icesave-ánauðina endanlega á Íslendinga á næstu dögum. Jóhanna og Steingrímur geta ekki hugsað sér aðventuna án hennar. Óvissan um hve þungbær þessi ánauð er auðvitað næg þótt ekki bætist við óvissan um réttmæti neyðarlaganna. Það er ófyrirgefanlegt að þingmenn stjórnarflokkanna geti ekki gefið þjóðinni þau grið hið minnsta að bíða niðurstöðu dómsstóla um þau efni.