Mánudagur 23. nóvember 2009

327. tbl. 13. árg.

T vennt sem fréttamenn myndu fjalla um og setja í samhengi, ef fréttamenn störfuðu á Íslandi:

Fyrra:

Í sumar var lekið fréttum um að Björgólfsfeðgar hefðu óskað eftir því að hluti skulda þeirra við Kaupþing yrði felldur niður. Steingrímur J. Sigfússon fór þegar í fréttir og sagði að sem borgara þessa lands ofbyði sér við að heyra af slíku. Lán til þeirra væri hvorki meira né minna en „síðasta lán undir sólinni sem ætti að afskrifa“. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði að sér svelgdist hreinlega á, við að heyra slíka hugmynd.

Gott og vel, fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í Kaupþingi og hefur lýðræðislegt umboð. Auðvitað getur hann haft skoðun á afdrifaríkum málum banka þar sem íslenska ríkið á núna verulega hagsmuni. Það er einkenni ríkisbanka að stjórnmálamenn eru beint og óbeint með puttana í rekstrinum. En Steingrímur er ekki alltaf jafn kokhraustur.

Í þessum mánuði fréttist af því að eigendur stærstu verslunarkeðju landsins, væru í viðræðum við sama banka um jafnvel tugmilljarða afskriftir skulda og að þeir haldi fyrirtækinu áfram. Fréttamenn ganga hæverskir á fund Steingríms J. Sigfússonar, en þá mætir þeim mun hógværari og varkárari maður. Þá telur hann að hann geti auðvitað ekki tjáð sig á nokkurn hátt, því þá gæti einhver haldið að hann væri að gefa bankanum fyrirmæli. Og „fréttamenn“ þakka fyrir sig og spyrja einskis framar. Í öllum venjulegum löndum hefðu þeir spilað stóryrði Steingríms frá því í sumar og síðan velt því fyrir sér af hverju hann gæti óhræddur tjáð sig í öðru málinu en væri dauðhræddur í því síðara.

Ef að „fréttamenn“ vilja rifja upp Björgólfsfeðgaummæli Steingríms, þá geta þeir gáð hjá sér 9. júlí.

Síðara:

Þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir fyrra Icesave-frumvarpi sínu, sem Samfylkingin og fjölmiðlamenn töldu rétt að samþykkja án nokkurra fyrirvara, sagði hann í framsöguræðu sinni:

Og verðum við svo ekki líka, eins og jafnan, að bera saman við málið og niðurstöðuna sem hér er lögð fram þann valkost að hafna henni og velta þá fyrir okkur afleiðingum þess. Komum við málinu út úr heiminum með því? Nei. Það verður bara þarna áfram óleyst. Hvaða afleiðingar hefur það? Það strandar öllu aðgerðaplaninu sem nú er unnið eftir og snýr endurreisn íslensks efnahagslífs, það strandar því öllu. Það liggur fyrir, rækilega skjalfest, að samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og afgreiðsla gjaldeyrislána þaðan strandar.

Fyrr í þessum mánuði skýrði forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því, skriflega á heimasíðu sjóðsins, að það hefði aldrei verið skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Icesave-málinu lyki með nokkrum hætti, af eða á.

Nokkuð ljóst er að annar hvor þessara manna fer með hrein ósannindi; Steingrímur J. Sigfússon á alþingi til að fá þingmenn til að samþykkja Icesave-frumvarpið, eða Dominique Strauss-Kahn á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, af einhverjum öðrum ástæðum. Í flestum öðrum löndum myndi fréttamönnum þykja afar stórt mál á ferð og það yrði fyrsta frétt þar til niðurstaða fengist. En ekki á Íslandi. Þar er það ekki nefnt.

Það er svo hægt að minnast þess að fyrir nokkru endurskoðaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn efnahagsáætlun Íslands og lán frá honum eru nú tilbúin til afgreiðslu. En Icesave-málið er enn óklárað í þinginu. Einhvers staðar myndu fréttamenn og þáttastjórnendur fjalla um þetta, en ekki á Íslandi.

Þá myndu fréttamenn í flestum löndum endurspila viðtölin við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, og aðra stjórnarliða frá því í ágúst, um að „lausn Icesave-málsins“ væri skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En hér hefur enginn fréttamaður áhuga á því.

Þó vill svo þægilega til fyrir fréttamenn að Steingrímur J. Sigfússon segir í ræðu sinni að það lægi fyrir, „rækilega skjalfest“, að samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strandaði ef Ísland gengi ekki undir Icesave-ánauðina.

Hann myndi auðvitað birta skjölin ef eftir því yrði leitað