Helgarsprokið 22. nóvember 2009

326. tbl. 13. árg.

E gill og Spegill Ríkisstjórnarútvarpsins bregðast ekki hendinni sem fæðir þá. Þegar ríkisstjórnin kynnti skattahækkanir sínar kallaði Spegillinn á Stefán Ólafsson prófessor í félagshyggju einn manna til að rýna í tillögurnar. Stór hluti af ræðu hans var endurtekinn í Speglinum daginn eftir.

Í hádeginu í dag fékk Egill Helgason einn mann til að ræða skattahækkanirnar í Ríkisstjórnvarpinu. Stefán Ólafsson prófessor í félagshyggju. Eins og allir aðrir vissi Egill að Stefán væri mjög ánægður með skattahækkanirnar. En þarna sat Egill eins og þægur seppi við fótskör húsbóndans. Hann átti ekki til snefil af efasemdum um fabúleringar Stefáns. Öllum fullyrðingum Stefáns mætt var með jái og nikki.

Um Stefán Ólafsson prófessor í félagshyggju er það að segja að á undanförnum árum hefur hann gangrýnt stjórnvöld mjög fyrir að hafa hækkað skatta. Til marks um það má nefna greinar hans á borð við „Skattar eru of háir“ og „Ofsköttuð þjóð“. Þar má einnig nefna greinina „Heimsmet í hækkun skatta?“ frá árinu 2006. Upphafsorð hennar hljóma svo:

Flestir hafa nú áttað sig á því að skattbyrði hefur aukist mikið á Íslandi á síðustu árum, en ekki lækkað eins og stjórnvöld hafa haldið fram.

Og áfram hélt Stefán:

Hvert ár frá og með 1997 er metár í heildarskattbyrði frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Ef frá er talið árið 1988, sem kom í kjölfar “skattlausa ársins” svokallaða, þá er árið 1999 metár hvað snertir mesta aukningu skattbyrðar á einu ári, allar götur frá 1965. Árið 2004 var einnig mikil aukning. Aukningin er bæði hjá ríki og sveitarfélögum, meiri þó hjá sveitarfélögunum, enda hafa stór verkefni (eins og rekstur grunnskólans) verið færð til þeirra. Ríkisstjórn hvers tíma setur ramma um skattheimtuna og ber á henni alla ábyrgð. Þegar Davíð Oddsson yfirgaf stjórnmálin á seinni hluta síðasta árs leit hann til baka og rifjaði upp feril sinn og mat árangur í landsmálunum, meðal annars í Morgunblaðinu. Sagðist hann við það tækifæri vera hvað ánægðastur með skattalækkanir þær sem ríkisstjórnir hans hefðu framkvæmt. Allir viðurkenndir mælikvarðar á skattbyrði sýna þvert á móti að ríkisstjórnir hans frá 1995 hafa slegið öll met í aukningu skattbyrðarinnar.

Nú kemur Stefán hins vegar og segir að einhverri ægilegri „frjálshyggjutilraun“ sé lokið. Engu að síður var það niðurstaða hans árið 2006 að „Davíð Oddsson og hjálparkokkar hans eru því stórtækustu skattheimtukóngar lýðveldisins.“ Er þetta sannfærandi? Hvaða frjálshyggjumaður hefur þá stefnu að setja heimsmet í hækkun skatta? Hvaða frjálshyggjumaður stefnir að því að verða skattheimtukóngur?

Gagnrýni Stefáns á skattlagningu undanfarinna ár var auðvitað ekki úr lausu lofti gripin þótt hún væri sett fram með ósanngjörnum hætti. Hann sagði ekki alla söguna. Þótt skatthlutföll hafi verið lækkuð hækkuðu tekjur manna svo hratt að þeir greiddu hærra hlutfall launa sinna í skatt. Þegar maður með 150 þúsund króna tekjur hækkaði í 300 þúsund árið 2007 fór skattbyrði hans úr 11% í 22% þótt skatthlutfallið færi lækkandi. Ef ríkisstjórnir þess tíma hefðu ekki lækkað skatthlutföll hefði skattbyrðin að sjálfsögðu þyngst enn meir hjá þeim sem voru að hækka í launum.

Það sem ríkisstjórnir síðustu ára hefðu þurft að gera er að lækka skattana mun meira og hraðar en þær gerðu. Það hefði dregið úr þyngingu skattbyrðarinnar þegar laun hækkuðu og einnig slegið á tekjuauka ríkissjóðs. Miklar tekjur ríkisins reyndust of mikil freisting fyrir stjórnmálamennina. Sendiráð, söfn, fjölbrautaskólar sem nefndu sig háskóla og hvers kyns eftirlitsstofur spruttu upp út um allar trissur. Mörg þúsund manns í blóma lífsins voru sett á hæstu félagslegu bætur sögunnar með svonefndri jöfnun fæðingarorlofs. Einstakir bankamenn, útrásarvíkingar og fleiri hálaunamenn fengu milljónir í bætur á velmektarárum þess kerfis.

Skrúfa hefði þurft fyrir þetta peningaflæði í ríkissjóðs til að stöðva útgjaldabrjálæðið. Og til þess hefði þurft miklu meiri og hraðari skattalækkanir.

Ef þetta hefði verið gert væri nú ekkert „gat sem þyrfti að brúa“  í ríkisrekstrinum með stórfelldum hækkunum skatthlutfalla.