Miðvikudagur 25. nóvember 2009

329. tbl. 13. árg.
Það er „populismi“ og ábyrgðarhlutur þegar stjórnmálamenn verja lögbrot eins og upplýsingalekann úr lánabók Kaupþings.
– Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari, í Lögmannablaðinu, 3. tbl. 2009

Á kaflega líklegt er að Lögmannablaðið berist á fréttastofur landsins. Mánuður er nú liðinn frá því síðasta tölublað kom út, svo ætla má að fréttamönnum hafi gefist tími til þess að segja frá því að vararíkissaksóknari landsins hefði sagt stjórnmálamenn hafa varið lögbrot og að það væri ábyrgðarhluti. En ekki hefur farið mikið fyrir slíkum fréttum. Hver ætli skýringin sé?

Ætli hún geti verið sú að þessi skoðun vararíkissaksóknara sé bara hreint ekki fréttnæm? Þeir sem halda það, gætu reynt að ímynda sér að vararíkissaksóknari hefði sakað stjórnmálamenn um að verja eitthvert annað athæfi en birtingu lánabókarinnar, og ímynda sér svo algera þögn fjölmiðlamanna um þá ásökun. Um slíka ásökun yrði aldrei þögn í íslenskum fjölmiðlum. En af hverju þá alger þögn hér?

Það er vafalaust vegna þess að hér var á ferð athæfi sem fjölmiðlamenn græddu á. Þeir fengu efni sem þeir gátu hagnýtt sér. Þá fannst þeim mörgum sjálfsagt að lög væru brotin. Þá hvarflar ekki að þeim að segja frá því að vararíkissaksóknari segi að stjórnmálamenn verji lögbrot. Fjölmiðlamönnum þykir nefnilega flestum í lagi að menn rjúfi trúnað, hvort sem að sú gjörð felur í sér lögbrot eða ekki. Ef að fjölmiðlamaðurinn hefur sjálfur hagsmuni í málinu, þá skipta lögin engu máli.

Sennilega afgreiða margir yfirborðs-fjölmiðlamenn ummæli vararíkissaksóknara einfaldlega með blæstri um að hún sé „varðhundur kerfisins“, „kerfiskelling“, „fulltrúi gamla-Íslands“ eða eitthvað þaðan af órökstuddara. En þar myndu þeir falla í þá gildru sem menn falla æ oftar í, þegar þeir gerast stóryrtir um lög og rétt: Þeir fjalla um lögin eins og þeim finnst að þau ættu að vera, en ekki eins og þau eru.Sumir fjölmiðlamenn virðast stundum halda að þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Að óhikað megi birta trúnaðarupplýsingar, að höfundalög gildi ekki um þá og þess vegna megi þeir endurbirta fréttir eða blaðagreinar annarra að vild, að meiðyrðalöggjöfin gildi ekki um þá og þess vegna megi þeir láta stóryrðin ganga yfir annað fólk, að hlutleysisreglur opinberra miðla gildi ekki um þá sem þar starfa, og svo framvegis. En þar hafa þeir rangt fyrir sér.

Hvort sem málið snýst um rétt manna til að leka upplýsingum eða eitthvað annað, þá ættu lögfræðilegar hliðar málsins að vera metnar eftir tveimur spurningum: Hvað segja lögin? Er farið eftir þeim?

Svör við þessum tveimur spurningum ættu að nægja flestum til að átta sig á hvað þeir mega og hvað ekki.

Svo geta menn auðvitað barist fyrir lagabreytingum ef þeir vilja.

O g svo það sé endurtekið: Vararíkissaksóknari segir stjórnmálamenn verja lögbrot. Enginn fréttamaður segir frá því og enginn segir hvaða stjórnmálamenn eiga þar í hlut.

En dag eftir dag geta þeir endurtekið nýjustu ályktanir femínstafélagsins um stjórn KSÍ.