Við þessar aðstæður reynir sérstaklega á fjölmiðlamenn. Að þeir sýni sanngirni í fréttaflutningi og gæti þess að eðlilegt jafnræði sé milli þeirra sjónarmiða sem komast að í umræðuþáttum. Og að þátttakendum í þjóðmálaumræðu sé veitt eðlilegt aðhald og þeir krafðir rökstuðnings fyrir staðhæfingum sínum. Afar mikilvægt er að fréttamenn og þáttastjórnendur, einkum hjá ríkisfjölmiðlum, gæti þess eins og þeir geta að persónulegar skoðanir þeirra á málum ráði hvorki umfjöllunarefni né vali viðmælenda.
Síðastliðinn sunnudag bauð Ríkissjónvarpið upp á einkaviðtal, inni í pólitískum umræðuþætti, við konu nokkra, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, sem sögð er stjórnsýslufræðingur. Þar sló hún fram alls kyns staðhæfingum um íslenska stjórnsýslu sem engin andmæli heyrðust við í þættinum. Þar sem enginn annar gestur var til andsvara við einræður konunnar, var ekki öðrum til að dreifa en stjórnanda þáttarins, en hann hins vegar efaðist ekki um eitt einasta orð hennar, bað hana aldrei um frekari rökstuðning, nefndi ekki eitt einasta atriði sem hefði getað bent í aðra átt en viðmælandinn vildi fara, og spurði ekki einnar einustu gagnrýnu spurningar, allt viðtalið.
Sigurbjörg þuldi yfir áhorfendum að mjög hefði verið þrengt að íslenskri stjórnsýslu á liðnum árum. Skýringin á því, eins og flestu öðru líklega, var auðvitað að undanfarin ár hefði „laissez-faire“-stefna ráðið hér ríkjum og í hennar nafni hefði öll stjórnsýsla verið skorin niður. Í tuttugu ár hefðu menn viljað „báknið burt“, „burt með alla fitu“ og í þessu skyni hefði verið „markvisst grafið undan starfsfólki innan stjórnsýslunnar“. Þá hefðu menn, í ljósi sömu stefnu, viljað sem allra minnst eftirlit, og til starfa í stjórnsýslunni væri einkum ráðið fólk „sem helst á að gæta þess að gera sem minnst“.
Við þessu hafði stjórnandi þáttarins ekki aðrar athugasemdir en „já“.
Samt er það nú svo að á þessu „laissez-faire“-skeiði var íslensk stjórnsýsla efld með ótrúlegum hætti. Starfsmönnum hennar hefur verið fjölgað verulega og kjör starfsmanna þar stórbætt. Á sama tíma voru gerðar miklar lagabreytingar í því skyni að bæta stjórnsýsluna, hvort sem er með stjórnsýslulögum, sem engin voru áður, eða með breytingum á ótal öðrum lögum. Nýjar eftirlitsstofnanir hafa verið settar á fót og fjárframlög til þeirra aukin verulega ár frá ári. Þannig var stofnað sérstakt fjármálaeftirlit fyrir rúmum áratug og eftirlitshlutverk Seðlabankans flutt til þess, til þess að gera eftirlit með fjármálakerfinu skilvirkara og betra. Ótal aðrar stofnanir voru settar á fót í sama skyni á öðrum sviðum. Allt bendir þetta til þess að á þessu tímabili hafi einmitt verið reynt sem mest að efla stjórnsýsluna.
Vitanlega hefði verið fróðlegt ef Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur hefði verið spurð um þetta.
Árið 2003 skrifaði Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi lagaprófessor og þá dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, fróðlega grein í Morgunblaðið. Vefþjóðviljinn vitnaði þá til niðurstaðna hans, sem voru nokkuð aðrar en þær sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur bauð upp á:
- „Dómstólar eru borgurum öruggara skjól en áður“
- „Þetta hefur, ásamt þróun í dómaframkvæmd, bætt mannréttindavernd á Íslandi og aukið á réttaröryggi borgaranna.“
- „Lögin hafa valdið straumhvörfum í opinberri stjórnsýslu á Íslandi.“
- „Lögin hafa aukið til muna gegnsæi í opinberri stjórnsýslu og um leið aukið réttaröryggi þegnanna í samskiptum við hið opinbera.“
- „Með gildistöku laganna varð grundvallarbreyting, m.a. til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.“
- „Öll þessi löggjöf hefur stórum aukið gegnsæi í viðskiptum með verðbréf á Íslandi og í raun lagt grunninn að íslenskum verðbréfamarkaði. Hún leiðir til stórbættrar stöðu almennings og greiðir fyrir þátttöku hans í viðskiptum með verðbréf.“
- „Reglur þessar þrengja til mun[a] svigrúm stjórnvalda til að draga taum einstakra fyrirtækja.“
- „Margt fleira mætti nefna frá fyrrgreindu tímabili sem horft hefur til aukins réttaröryggis og traustari stöðu einstaklinga svo sem nýskipan lögreglumála, ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ný lögræðislög og ný barnaverndarlög, margvíslegar breytingar á hegningarlögum o.s.frv. Listinn er í raun mjög langur og ekki unnt að gera honum fullnægjandi skil í þessari stuttu grein.“