Laugardagur 24. október 2009

297. tbl. 13. árg.
Ö gmundur Jónasson segist vilja reka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi og segir sjóðinn ekki hingað kominn til aðstoðar heldur til innheimtu fyrir „lánardrottna Íslands“.

Það er rétt hjá Ögmundi, að þrátt fyrir fullyrðingar stjórnvalda og ýmissa annarra spekinga um hið gagnstæða, þá hefur gjaldeyrissjóðurinn tekið að sér að þrýsta á um að íslenska ríkið taki á sig tilteknar erlendar skuldir einkafyrirtækis. En það er ríkisstjórnin, sem Ögmundur styður af lífi, sál og hatri á Sjálfstæðisflokknum, sem ætlar að leggja þær skuldir á Ísland. Ef ekki koma til atkvæði stjórnarþingmanna, þar á meðal Ögmundar Jónassonar, Ásmundar Einars Daðasonar, Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslasonar og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þá verða þessar skuldir ekki lagðar á íslenska ríkið. Þetta fólk þyrfti ekki annað en að styðja á réttan takka, og þá munu hundraða milljarða króna skuldbindingar ekki verða lagðar á kynslóðir Íslendinga. Og ólíkt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þá hefur þetta fólk víst einhverjar fleiri skyldur við Ísland en að framkvæma allar þær skipanir Össurar Skarphéðinssonar sem Steingrímur J. Sigfússon ber til þeirra á gljáfægðum silfurbakka úr ráðherrabústaðnum.

Það mætti Ögmundur Jónasson hafa í huga, næst þegar hann hvetur til brottvísana úr landinu.

Ekki þar fyrir, ekki hefur Vefþjóðviljinn hvatt til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði fenginn hingað eða hafður hér. Vel má afþakka alla aðstoð sjóðsins, Vefþjóðviljans vegna, en á meðan íslenskir þingmenn ætla að leggja Icesave-skuldbindingarnar á Íslendinga, án nokkurrar lagaskyldu, þá er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki stærsta vandamálið.

N ú er farið að sýna nýjustu kvikmynd áróðursmannsins Michaels Moores. Að þessu sinni er það kapítalisminn sem fær á sparibaukinn hjá Moore, en fátt hefur bætt hag hins almenna manns meira en kapítalisminn, þó annað mætti stundum ráða af gaspri og stóryrðum á opinberum vettvangi.

Það er auðvitað óþarfi að spyrja, en er ekki örugglega frítt inn á myndina? Ekki er Moore að þessu til að græða á því? Poppið og kókið, fær ekki hver bara eins og hann vill af því, borgar eftir getu, fær eftir þörfum?

Og fyrst minnst er á Michael Moore, sem sumir telja hinn marktækasta mann, þá má vekja athygli á því, að í viðauka hinnar stórgóðu bókar Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004, er birt fjórtán blaðsíðna úttekt hans á verðlaunamynd Moores, Farenheit 9/11. Er óhætt að segja að úttektin sé fróðleg fyrir þá sem hyggjast þiggja leiðsögn Michels Moore um samtímann. Fjölmiðlar 2004 fást í Bóksölu Andríkis.