Mánudagur 26. október 2009

299. tbl. 13. árg.
Þ egar hræðilegar hörmungar dynja yfir í fjarlægum löndum, reyna önnur ríki yfirleitt að koma sem fyrst til hjálpar. Hjálparsveitir, búnaður og lyf streyma víða að og íslenskir fjölmiðlar greina frá því að leiðtoga ríkisns hafi borist samúðarkveðjur forseta Íslands, svo ekki sé öll von úti. Forseti Íslands gætir þess jafnframt að forsetaskrifstofan sendi út fréttatilkynningar um bréfasendingarnar, svo landsmenn þurfi ekki að óttast að forsetinn hafi ekki brugðist skjótt við. Forsetinn gætir þess líka í bréfunum að vera ekki með eitthvert innihaldslaust snakk á erfiðum tímum heldur notar tækifærið og ræðir ýmis mál, eins og hann upplýsir þegna sína um.

Þannig má rifja upp að þegar jarðskjálftar riðu yfir Ítalíu á dögunum, með miklu manntjóni og gríðarlegu eignatjóni, skrifaði Ólafur Ragnar Grímsson þegar í stað bréf til Giorgio Napolitano vék þar talinu meðal annars að „rannsóknun Íslendinga á sviði jarðskjálfta og hinu öfluga viðvörunarkerfi sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar hefðu þróað. Sú þekking gæti verið framlag Íslendinga til þjóða sem byggju við hættu á jarðskjálftum“, svo vitnað sé í fréttir af bréfi forseta Íslands til forseta Ítalíu.

Nú hefur það hins vegar gerst að óskað hefur verið eftir aðgangi að bréfum sem forsetinn hefur viðurkennt að hafa skrifað á vegum útrásarmanna undanfarin ár. Ef marka má fréttir þá hefur skrifstofa forsetans neitað að verða við því, og borið því við að forsetinn geti ekki birt þau bréf sem hann hafi skrifað til þjóðarleiðtoga sem enn séu í embætti. Hér er greinilega á ferð leiðinlegur misskilningur á skrifstofunni, því Ólafur Ragnar sjálfur hefur ekki legið á því undanfarin ár, hversu ötull hann hefur verið að skrifa erlendum þjóðarleiðtogum og stappa í þá stálinu þegar mikið hefur legið við.