N ú hafa verið kynntar aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst standa fyrir, vegna „greiðsluvanda heimilanna“. Samkvæmt fréttum munu afborganir lána lækka um allt að 40% og má líklega spyrja hvers vegna afborganirnar hafi ekki verið lækkaðar um 90%, eða jafnvel 100%, því ef marka má gagnrýnislausan fréttaflutninginn þá kostar þetta ekki neitt. Afborganir lækka bara og svo fellur afgangurinn af lánunum niður um síðir og enginn tapar neinu, ef marka má fréttir.
En auðvitað tapar einhver. Ef lántaki borgar ekki það sem um var samið, þá tapar lánveitandinn. Sem aftur kann að þýða að aðrir tapa á honum, lánveitendur hans eða eigendur og hugsanlega starfsmenn. Auðvitað þurfa upplýsingar um þá hlið málsins að fylgja fréttum af þessum tillögum.
Vitanlega er staðan þó ekki þannig að allir skuldarar hefðu greitt allt upp í topp, ef ekki hefðu komið til einhverjar svona aðgerðir sem losa þá undan því. Margir hafa stofnað til skuldbindinga sem þeir ráða ekki lengur við, og þó veð séu að baki þá verða þau minna virði eftir því sem lánveitendur eignast meira af þeim. Það getur þess vegna verið skynsamlegt af lánveitendum að semja fremur við skuldara um lengri afborgunartíma og lægri og jafnvel niðurfellingu hluta skulda.
Menn eiga hins vegar að fara varlega í að beita ríkisvaldinu í aðgerðum sem þessum. Menn hafa samið með tilteknum hætti. Menn hafa fengið fjárupphæð að láni, gegn því að borga hana til baka með þessum og þessum skilmálum, þeir nota upphæðina til að kaupa eitthvað sem þeir hafa talið sig vanhaga um, en þá kemur ríkisvaldið skyndilega og breytir samningnum til hagsbóta fyrir annan samningsaðilann en ekki hinn. Síðastliðið haust ákvað alþingi að breyta kröfuröð í viðskiptabankana, afturvirkt. Með því var réttur sumra kröfuhafa gerður ríkari en hann var, en réttur annarra veikari. Var þar tekið afar varhugavert skref, þó vitaskuld verði að sýna þingmönnum þá sanngirni að muna að aðstæður voru mjög sérstakar og menn töldu sig þurfa að vinna mjög hratt. Nú gefst hins vegar meiri tími til umhugsunar.
Annað sem þingmenn verða að hafa í huga nú, er það hvaða skilaboð þeir vilja senda með lagasetningu sinni. Tveir menn, á sambærilegum tekjum og með sambærilegar aðstæður, taka ólíkar ákvarðanir. Annar neitar sér um ýmislegt sem hann þó langar í, leggur fyrir og byggir upp varasjóð. Hinn tekur lán í erlendri mynt og notar það til að kaupa sér dýran bíl og nýjar innréttingar. Þróun gjaldmiðla verður svo önnur en hann veðjaði á. Ríkið kemur þá, ákveður að hann þurfi ekki að borga lánin sín til baka að fullu. Hinn fær ekki lægri afborganir heldur hækkaðan fjármagnstekjuskatt. Hvaða skilaboð senda slíkar ráðstafanir til fólks?
Það er hins vegar skiljanlegt að þingmenn vilji „koma til móts við heimilin“. Þeir mega hins vegar ekki gleyma því, að „heimilin“ eru mörg, aðstæður þeirra ólíkar og ástæðurnar fyrir aðstæðum þeirra eru líka ólíkar.
Sú hugmynd að afborganir verði tekjutengdar er svo afar slæm. Með henni er fólk dæmt í fátæktargildru. Maður sem bætir við sig vinnu hefur ekkert upp úr því nema vinnuna, viðbótarlaunin fara í afborganir sem annars hefðu fallið niður. Þessi hugmynd brýtur niður sjálfsbjargarviðleitni og frumkvæði. En þetta er auðvitað ágæt leið fyrir ríkisstjórn sem vill að laun verði sem lægst, láglaunastéttir sem fjölmennastar og aðrar sem fámennastar. Fyrir alla aðra er hugmyndin vond. En undir vinstristjórn má búast við slíkum hugmyndum. Stjórnin vill hafa skatta sem hæsta, laun sem lægst og sem flesta á einhvers konar bótum.