Þriðjudagur 29. september 2009

272. tbl. 13. árg.

Þ egar loks tókst að einkavæða nokkur fjármálafyrirtæki ríkisins um aldamótin var því mjög haldið á lofti að öflugar eftirlitsstofnanir hins opinbera myndu gefa hinum nýja einkarekstri gætur. Og það var engin lygi að eftirliststofnanir á borð við samkeppnisstofnun og fjármálaeftirlitið höfðu þá verið settar á fót. Kostnaður við rekstur þeirra jókst ár frá ári og starfsmönnum fjölgaði. Seðlabanki stýrði svo vöxtum, sérstakt viðskiptaráðuneyti vakti yfir öllu saman og hið opinbera tók sem fyrr um 40% þeirra verðamæta sem urðu til í þjóðfélaginu í sína vörslu.

Þessu til viðbótar voru Íslendingar orðnir aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir fengu því að njóta alls þess sem öflugasta reglugerðafabrikka sögunnar framleiddi. Þessar reglur náðu meðal annars til fjármálastarfsemi. Í Evrópusambandinu vantar ekkert upp á reynslu manna af fjármálaþjónustu. Innan sambandsins eru rótgrónar fjármálamiðstöðvar. Fjármálastofnanir þeirra hafa oft lent í vandræðum á undanförnum áratugum og því gæti einhver jafnvel ætlað að sú reynsla og reglur sambandsins myndu girða fyrir helstu asnaspörkin í þessum rekstri. Það er svo óþarft að taka fram að í hverju landi sambandsins starfa öflugar eftirlitsstofnanir. Seðlabankar Evrópu og einstakra landa gæta að stýrivöxtum og peningamagni.

En fjármálastofnanir í flestum ríkjum Evrópusambandsins lentu í vandræðum á síðustu misserum. Svo slæmt er raunar ástandið í sumum ríkjum sambandsins, að ógleymdu eyríki á Evrópska efnahagssvæðinu, að það er alveg réttmæt spurning hvort það gæti verið verra án allra þessara reglna og opinbers eftirlits.

Þegar fjármálakerfi ríkis lamast og 90% hlutabréfamarkaðar þurrkast út á einni viku undir öllu þessu eftirliti og samevrópsku reglum hvernig hefði þá farið án afskipta hins opinbera?