Mánudagur 28. september 2009

271. tbl. 13. árg.

Þ egar eitthvað fer úrskeiðis eru fyrstu viðbrögð fréttamanna, álitsgjafa og margra annarra þátttakenda í fjölmiðlaumræðu, að ríkið hljóti að hafa brugðist. Að „eftirlitsstofnanir“ hlytu að hafa klúðrað málum. Engar reglur hafi verið til um nákvæmlega svona atburð. Að nú verði bara að finna hverjir hefðu verið „á vakt“, og þar væru hinir seku fundir. Og herða svo eftirlitið.

Í hverri einustu kreppu hafa stjórnmálamenn notað tækifærið til að boða nýjar reglur og auka eftirlitið. Kreppurnar koma samt alltaf aftur. En þetta er fallega boðið af þeim sem sögðust ætla að verja okkur gegn kreppum með reglugerðaflóði og rándýrum eftirlitsstofnunum. Hver tekur ekki boði um að verk sem hefur mistekist hrapalega verði unnið að nýju fyrir hærri reikning?

U m helgina var kosið til þings í Þýskalandi, en efnahagskreppan í heiminum hefur farið illa með Þjóðverja. Stórfyrirtæki hafa komist í þrot, atvinnuleysi eykst hröðum skrefum sem og skuldir þýska ríkisins. Jafnaðarmenn guldu afhroð og flokkur Angelu Merkel missti svolítið fylgi. En þar sem Frjálslyndir demókratar, frjálslyndasti flokkur Þýskalands, fékk mesta fylgi í sögu sinni stefnir nú í myndun mun frjálslyndari og hægrisinnaðri stjórnar í Þýskalandi en áður. Í Portúgal var kosið sömu helgi og þar misstu jafnaðarmenn 8% fylgi og þann meirihluta sem þeir höfðu áður.

Í sumar fóru fram kosningar til Evrópuþingsins. Í Bretlandi sigraði Íhaldsflokkur Davids Camerons, í Frakklandi sigruðu fylgismenn Sarkozys, á Ítalíu fylgismenn Berlusconis.

Hvergi nema á Íslandi heyrast hrópin um að einhver frjálshyggja hafi komið öllu í kaldakol.

Þeir sem stundum æpa að Ísland sé óheppnara með viðskiptamenn og stjórnmálaflokka en önnur lönd, ættu kannski að velta fyrir sér hvort verið geti að Ísland sé óheppnara með fréttamenn og álitsgjafa en mörg önnur lönd.

Í ritstjóraspjalli nýjasta heftis Þjóðmála segir Jakob F. Ásgeirsson

Furðulegt er að lesa margt á hinu svokallaða bloggi. Þar er klifað á því að hér á landi hafi verið stofnað eitthvert sérstakt samfélag eftir forskrift frjálshyggjumanna.

Á sömu nótum er málflutningur forystumanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna – að hægri stefna í stjórnmálum, „nýfrjálshyggjan“, hafi komið landinu á kaldan klaka. Vegna rótgróinnar vinstri slagsíðu
á fjölmiðlunum fær þessi vitleysa að vaða uppi í fjölmiðlaumræðunni.

Það þarf ekki annað en að líta á vöxt ríkisútgjalda á undanförnum árum til að sjá hversu fráleit þessi staðhæfing er. Hvernig getur samfélag þar sem ríkið er með um helming allra útgjalda í efnahagskerfinu
verið draumaríki frjálshyggjumanna? Og hvernig getur það verið draumur frjálshyggjumanna, sem vilja að einstaklingurinn sé ábyrgur fyrir sínum gerðum, að ríkið (skattgreiðendur) ábyrgist brask einkabanka?

Voru það ekki Vinstri grænir sem vildu á sínum tíma að ábyrgð ríkisins á bankainnistæðum yrði ennþá meiri en haldið er fram að hún sé núna?! En hvað með græðgina? Vilja ekki hægri menn að fólk græði á daginn og grilli á kvöldin? Nei, það hefur aldrei verið sérstakt stefnumál hægrimanna að ýta undir græðgi.

Í stefnu hægri manna felst að stuðla að sem mestum hagnaði í rekstri fyrirtækja með því að skapa atvinnulífinu umhverfi þar sem starfsemi fyrirtækja vex og dafnar. (Það hefur síðan í för með sér hærri launagreiðslur, minna atvinnuleysi og hærri skatttekjur ríkisins.)

Hægri menn bera ekki meiri ábyrgð á fjármálakreppunni en aðrir. Og hægri stefna í stjórnmálum hefur ekki beðið skipbrot. Hvergi nema uppi á þessu skeri okkar er slíku haldið fram. Eðlilega er sitjandi stjórnvöldum í öllum löndum kennt um að hluta – og þau eru ýmist til hægri og vinstri – en alls staðar gera menn sér grein fyrir því að það er fjármálageirinn sem ber ábyrgðina. „Nýfrjálshyggja“ er ekki álitin sökudólgur nema í þessu örríki okkar hér norður í ballarhafi.