Helgarsprokið 27. september 2009

270. tbl. 13. árg.

M

Svartbók kommúnismans ættu allir að eignast.
Formaður utanríkismálanefndar alþings skartar Che Guevara.
Ungur og upprennandi fjölmiðlamaður er spurður árið 2005 hver sé hans uppáhaldsstjórnmálamaður. Það reynist vera Castro. Hann er líka spurður hvern hann langi mest til að hitta. Það reynist líka vera Castro.)

eðal þeirra bóka sem mest hafa selst í Bóksölu Andríkis er hin aðgengilega bók Kommúnisminn – sögulegt ágrip eftir Richard Pipes, fyrrverandi prófessor í sagnfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, einn helsta sérfræðing heims í nútímasögu Rússlands. Þarf það ekki að koma á óvart, enda verður hver sá þjóðmálaáhugamaður, sem vill teljast upplýstur, að kynna sér hvað kommúnisminn lagði á heimsbyggðina. Má færa fyrir því sterk rök að þar hafi falist mestu manngerðu hörmungar sögunnar, þó auðvitað sé á margan hátt flókið að gera þar á upp á milli kommúnismans og nasismans.

Fyrir nokkru kom út á íslensku önnur bók um þetta málefni, sem verðskuldar ekki síður athygli og vandlegan lestur. Var þar á ferð íslensk þýðing hinnar heimskunnu Svartbókar kommúnismans, sem fyrst kom út í Frakklandi árið 1999. Er hún til muna ýtarlegri en bók Pipes, sem réttilega var kynnt sem sögulegt ágrip, þó fróðlegt og sláandi væri. Höfundar þessarar bókar eru sex franskir fræðimenn sem skipta liði við að fara yfir stjórn kommúnista í ólíkum löndum heims, og undirtitillinn, glæpir – ofsóknir – kúgun, gefur nokkuð glögga hugmynd um þær niðurstöður sem birtast ófegraðar á rúmlega 800 blaðsíðum bókarinnar.

Í formála sínum segir Stéphane Courtois að um eitthundrað milljónir manna hafi verið drepnar undir harðstjórn kommúnista, í þeim ólíku löndum þar sem þeir réðu ríkjum. Sumir aðrir fræðimenn hafa að vísu talið þá niðurstöðu í hærra lagi, og talið að hinir drepnu hafi verið áttatíu og fimm milljónir. Hvor talan sem fer nær sanni, er ljóst að kommúnisminn er einstök helstefna sem hefur fært nær ólýsanlegar hörmungar yfir fólk. Enginn samanburður er þar við hæfi, nema skelfing nasismans.

Þessi stórfróðlega og í raun hræðilega bók Frakkanna sex, bætist í dag í Bóksölu Andríkis. Ástæða er til að hvetja áhugamenn um stjórnmál og í raun alla áhugamenn um manngildi, til þess að verða sér úti um hana. Þó lýsingarnar séu ekki fagrar, þá mega örlög þess fólks sem varð undir hrammi kommúnismans ekki gleymast.

En vita ekki allir allt sem þeir þurfa að vita um kommúnismann? Hvaða þörf er á að halda til haga og ota að fólki þessum hörmungum sem allir vita allt um nú?

Síðasta haust gaf ekki ómerkara forlag en Hið íslenska bókmenntafélag út nýtt bindi í lærdómsritaröð sinni. Með stolti kynnti þetta gamla félag Jóns Sigurðssonar að nú hefði það gefið út Kommúnistaávarpið eftir þá Marx og Engels, og væri þetta „ekki einungis pólitískt greiningarrit, heldur líka innblásið áróðursrit” sem „allir ættu að kynna sér“.

Hvernig ætli menn brygðust við ef oddviti íslenskra fjölmiðlamanna og síðar pólitískur leiðtogi sem mikið kveður að, myndi lýsa því yfir að Jósep Göbbels væri sinn eftirlætisstjórnmálamaður og hefði verið traustur foringi? Hversu lengi yrðu slík ummæli ekki rifjuð upp? Í maí 1997 talaði Vikublaðið, arftaki Þjóðviljans, við Lúðvík Geirsson, sem þá var bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins í Hafnarfirði og formaður Blaðamannafélags Íslands. Meðal spurninganna var á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Svar bæjarfulltrúans og formanns Blaðamannafélags Íslands var skýrt: „Lenín hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hann var traustur foringi“

Vefþjóðviljinn vakti athygli á þessu svari daginn eftir. Aðrir fjölmiðlar höfðu lítinn áhuga á þessari skoðun Lúðvíks, sem nú er bæjarstjóri í Hafnarfirði og fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi.

Í Svartbók kommúnismans fá menn aldeilis að lesa um ógnarstjórnina sem þeir félagar Lenín og Stalín leiddu yfir Sovétríkin. Milljónir manna vísvitandi drepnar, oft með hryllilegum hætti. Skelfileg hungursneyð varð að sérstöku tæki til þess að ná fram endurskipulagningardraumum nýju valdhafanna. Allt þótti réttlætanlegt í þeim tilgangi að skapa nýtt Rússland. Vitandi vits var lagt á ráð um útrýmingu heilla stétta, ólíkt nasistum sem beindu spjótum sínum þess í stað að kynþætti sem þeir sögðu bera alla ábyrgð á ógæfu og hruni Þýskalands.

Í Svartbók kommúnismans er hryllingssagan rakin á rúmlega 800 blaðsíðum. Nútímamanni kann að þykja ótrúlegt að lesa hvílík skelfing viðgekkst fyrir fáum árum víða um heim, og mætti hann þá jafnframt muna að ekki eru öll lönd laus undan kommúnismanum. Og víða um hinn frjálsa heim voru menn sem töluðu máli kommúnismans, drógu í efa fréttir af ógnarstjórn kommúnistaríkjanna og gerðu allt tortryggilegt sem vestræn ríki reyndu að gera til að verjast rauðu ógninni. Forystumenn vestrænna ríkja, sem stóðu fast gegn kommúnistaríkjunum voru úthrópaðir af evrópskum álitsgjöfum sem stríðsóðir fáráðlingar sem væru sjálfir mesta ógnin við heimsfriðinn.

Og Svartbók kommúnismans minnir jafnframt á, að ef menn gefa eftir á varðstöðunni um frelsi, lög og rétt, þá getur farið illa. Þeir sem illvirkin unnu, í nafni kommúnismans, voru sjálfsagt alls ekki alltaf illmenni af náttúrunnar hendi. En aðstæður urðu til þess að mannleg illska náði yfirhöndinni hjá þeim, sem alltaf getur gerst ef fólk telur sig hafa fengið þau skilaboð frá umhverfinu að nú gildi ekki lengur lög og réttur, eða að einstakir hópar séu orðnir réttlausir. Í Þýskalandi var gefið veiðileyfi á gyðinga. Fjöldi manna, sem áður var sjálfsagt ekki meira á móti gyðingum en öðrum, greip tækifærið. Fyrst var látið átölulaust er eignir þeirra voru skemmdar, einkum hús og verslanir. Næst var beinlínis farið að hvetja til þess. Svo komu fangelsanir. Loks útrýming. Í kommúnistaríkjunum urðu vissar þjóðfélagsstéttir réttlausar; fyrst mátti taka af þeim bújarðir og hús, síðan aðrar eignir. Loks lífið.

Svartbók kommúnismans er ekki gleðilestur, nema að því leyti að hún gefur lesandanum enn eitt tilefnið fyrir að þakka fyrir að hafa aldrei kynnst ógnarstjórn. En hún er líka áminning um hvert mannleg illska getur náð. Og hún er verðugur minnisvarði um örlög hundrað milljóna manna, sem hinir heppnu Vesturlandabúar hafa ekki alltaf viljað vita af.