Laugardagur 26. september 2009

269. tbl. 13. árg.

V ilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í Fréttablaðinu í dag að ríkið verði að taka ráðin af Seðlabanka Íslands lækki bankinn ekki stýrivexti hið snarasta.

En ríkisstjórn og seðlabanki starfa að forskrift Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem Vilhjálmur taldi einmitt svo mikilvægt að kæmi hér að málum. Svo mikilvæg er þátttaka AGS í stjórn landsins að ýmsir menn vilja jafnvel að skattgreiðendur taki á sig skuldir sem einkafyrirtæki stofnaði til við sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi svo að AGS geti starfað hér áfram með blessun Evrópusambandsins.

Það myndi því litlu breyta þótt hin formlega ákvörðun um vexti færðist yfir Hverfisgötuna, úr seðlabankanum í stjórnarráðið.

Hvoru megin Hverfisgötunnar eða hvoru megin Atlantshafsins er hins vegar aukaatriði. Mikilvægasta spurningin er hvort þessi ákvörðun um vexti á að vera í höndum ríkisins. Sem fyrr spyr Vefþjóðviljinn hví stofnanir ríkisins, hvort sem þær heita seðlabanki, vaxtastefnunefnd, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eða ríkisstjórn, ákveði verð á peningum. Hvaðan kemur ríkinu vitneskja til að stýra framboði og eftirspurn eftir fjármagni? Er ekki eðlilegra að framboð og eftirspurn stýri verði á fjármagni en að þessu sé snúið á haus með afskiptum ríkisins?

Það má kannski ekki nefna það á meðan menn ljúka við að ausa rauðri málningu og bloggformælingum yfir heimili og einstaka menn. En er hugsanlegt að fjármálabólan sem sprakk fyrir ári eigi ekki upptök sín í verkum einstakra manna heldur í því undarlega fyrirkomulagi að ríkið gefur út og ákveður verð á peningum? Lágt verð á fjármagni – lágir vextir – leiddi til slæmra fjárfestinga um allan heim. Fólk og fyrirtæki tóku lán til framkvæmda sem þau hefðu ella ekki gert. Verst hafa þeir farið út úr þessu sem tóku mark á vöxtum seðlabanka Bandaríkjanna, Evrópu og Japans. Þeir reyndust fullkomin villuljós.