Föstudagur 25. september 2009

268. tbl. 13. árg.

S ovétríkin voru meðal fyrstu ríkja til að taka upp ákvæði um umhverfisvernd í stjórnskipunarlög sínum. Það þótt mikið heillaspor og var getið að góðu í kennslubókum í „umhverfisrétti“. Það dugði þó skammt. Þar sem einkaeignarréttur er ekki til staðar er lítil hætta á að menn verndi náttúruna. Það hefur enginn beinan ávinning af því. Ákvæðið í stjórnarskrá Sovétríkjanna var því ekki aðeins fjarstæða heldur einnig þverstæða í eignarréttarlausu samfélagi.

Í lögum um Ríkisútvarpið er  kveðið á um hlutleysi stofnunarinnar með ýmsum hætti. Það á að „tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag“. „Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“ Og þegar kemur að fréttum er óskhyggjan alger því í lögunum segir:

Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.

Allir vita að „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins og fréttatengdir þættir eins og Spegillinn veita allt nema hlutlæga fréttaþjónustu. Enda hefur það nákvæmlega engar afleiðingar fyrir „fréttamenn“ Ríkisútvarpsins að draga taum vinstri flokkanna. Þeir geta áhyggjulaust lagst á árarnar með ríkisstjórninni og mælt Icesave-ánauðinni og aðild að Evrópusambandinu bót. Það eru auðvitað engin viðurlög við brotum á hlutleysislögum Ríkisútvarpsins. Lögin eru bara loftkastalar eins og stjórnarskrárákvæðið um umhverfisvernd í Sovét. Í raun er það þverstæða að ætla að menn fari vel með það sem þeir hafa enga hagsmuna af að gæta.

En það er öllu verra að hlustendur og áhorfendur ríkisfjölmiðlanna geta ekki sent þeim skilaboð með því segja upp áskriftinni.