Fimmtudagur 24. september 2009

267. tbl. 13. árg.

Þ eir eru seigir hjá „fréttastofu“ Ríkisútvarpsins og sjálfum sér líkir. Þegar tilkynnt var um nýja ritstjóra Morgunblaðsins voru þeir fljótir að finna mann með líkt símanúmer og Árvakur, sem sagði að þangað hefði verið hringt til að segja upp áskriftinni. Og til að ekki færi milli mála hvað ætti að gera, þá var tekið fram í hvaða númer ætti að hringja til að segja henni upp.

Stórfréttin var auk þess sett á forsíðu textavarpsins, til öryggis og var þar tímunum saman, sem ein af fjórum stærstu fréttum dagsins, innanlands og utan. Það var hringt í vitlaust númer, góðir hálsar. Við erum með stórfrétt hér á Rúv. Við endurtökum, það var hringt í vitlaust númer til að segja upp áskriftinni. Já og hér er númerið sem þið eigið að hringja í. „Reiðir áskrifendur fara takkavillt“ stendur tímunum saman á forsíðu textavarpsins, svona ef einhver skyldi ekki hafa frétt að menn væru að fara yfir um í Efstaleitinu.

En hvert eiga þeir að hringja til að segja upp, þeir sem hafa fyrir löngu fengið nóg af því hvernig „fréttastofu“ Ríkisútvarpsins, eða einstökum þáttum, er beitt fyrir skoðunum þeirra sem þar hafa hreiðrað um sig? Og gegn þeim sem þeir hatast við.

Þetta er gömul saga og ný. Þegar maðurinn sem „fréttamenn“ Ríkisútvarpsins hatast við, öðrum fremur, er annars vegar, er iðulega brugðist við með „gagn-frétt“, eins og til dæmis þeirri sem Björn Malmquist bjó til í sumar, þegar Davíð Oddsson leyfði sér að hafa skoðun á Icesaveánauðinni sem ríkisstjórnin var þá að reyna að troða gegnum alþingi.

En datt einhverjum í hug, að ekki yrðu raðhjartaáföll á „fréttastofu“ Ríkisútvarpsins?