Miðvikudagur 23. september 2009

266. tbl. 13. árg.

A llt frá valdatöku Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hálfu ári, hefur það verið áberandi hversu lítið hún er fyrir að veita viðtöl. Einkanlega hefur þetta verið áberandi ef erlendir fjölmiðlar eiga í hlut, en forsætisráðherra Íslands hefur ekki yrt á slíkan aðila síðasta hálfa árið. Þá hefur Jóhanna staðfastlega neitað að fara á fund erlendra leiðtoga, þó boðist hafi, og hefur þannig afþakkað að hitta menn eins og Gordon Brown, Barack Obama, Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta verið mjög sérkennilegt, en þó haft við sig ákveðinn sjarma, ekki síst í samanburði við ljóskastaraleitina sem staðið hefur á Bessastöðum undanfarin ár. En á þeim tímum þegar erlend ríki, sem um margra ára skeið hafa verið vinaríki, reyna í samningum að leggja óheyrilegar byrðar á Íslendinga, umfram allan rétt, og þegar reynt er að gera málstað Íslands sem verstan í erlendum fjölmiðlum, þá er hálfs árs þögn forsætisráðherra Íslands, mjög sérstök. Erlendum fjölmiðlum er vart svarað þegar þeir biðja um viðtöl. Það er ekki farið á erlenda fundi, ekki fremur en á íslenska kosningafundi. Allt er þetta mjög óvenjulegt.
Undanfarna mánuði hefur Jóhanna Sigurðardóttir verið töluvert gagnrýnd fyrir þetta. Hefur gagnrýnin orðið svo hávær, að ef hún stendur í allmörg ár enn, þá má jafnvel ímynda sér að ríkisútvarpið frétti af henni, þó það sé ekki mjög líklegt auðvitað.

En sumir hafa þó heyrt af þessari gagnrýni og í síðustu Lesbók Morgunblaðsins birtist tæplega heilsíðugrein þar sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir tekur til harðra varna fyrir þennan „stjórnunarstíl“ Jóhönnu. Rósa Björk hefur undanfarið einkum gert garðinn frægan sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu, og sinnti þar til dæmis af miklum þrótti svokölluðu styrkjamáli Sjálfstæðisflokksins.

En varnargrein Rósu Bjarkar í lesbókinni er hin háfleygasta lesning. Þar segir meðal annars

Margt og mikið hefur verið ritað og rætt um meinta þögn forsætisráðherra í erlendum fjölmiðlum. Umræðan um þessa ákvörðun og stefnu ráðherrans hefur verið nokkuð einsleit að mínu mati. Pólitískir andstæðingar forsætisráðherrans hafa hamrað á því hversu slæmt það sé að ráðherrann veiti ekki viðtöl. Margir fjölmiðlamenn hafa býsnast yfir ósýnileika forsætisráðherrans út á við og margir flokksfélagar Jóhönnu Sigurðardóttur hafa nokkrar áhyggjur af þessu. En er það slæmt að forsætisráðherrann veiti erlendum fjölmiðlum ekki viðtöl? Eða ber það einfaldlega vott um mjög mismunandi stjórnunarstíl og áherslur núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra?

Síðan veltir Rósa Björk vöngum yfir þessari flóknu spurningu, og veltir því meðal annars upp að Jóhanna „og ráðgjafar hennar“ séu nú „í þeirri stöðu að geta valið við hvaða erlenda fjölmiðla hún vill tala við. Þar með valið hvar og með hvaða hætti málstað Íslands er komið á framfæri nú þegar ímynd þjóðarinnar á erlendri grundu er í molum.“ Jóhanna geti líka „nýtt sér þann áhuga sem er fyrir því erlendis að hún er fyrsta konan til að sitja í stól forsætisráðherra Íslands og leiðir íslenskt samfélag á afar viðkvæmum tímum með fyrstu vinstri stjórn landsins við stjórnvölinn.“

En Jóhanna, sem að sögn Rósu Bjarkar hefur getað valið „hvar og hvenær málstað Íslands er komið á framfæri“, hefur hins vegar tekið þann kost að koma honum hvergi á framfæri, í hálft ár. En um það hafa þegnar hennar ekkert að segja, að mati Rósu Bjarkar:

En það er ekki stíll Jóhönnu. Hún hefur kosið að tjá sig lítið sem ekkert við erlenda og innlenda fjölmiðla. Hvort sem það er útpæld ákvörðun hennar eður ei, verða allir að virða hennar persónulegu ákvörðun. Pólitískir andstæðingar og samherjar, sem og innlendir sem erlendir fjölmiðlar.

Nei, það kemur Íslendingum sko ekkert við hvort forsætisráðherra þeirra tekur upp hanskann fyrir íslenska ríkið erlendis. Sem er kannski alveg rétt, því miðað við hörku Jóhönnu í að berjast fyrir breskum og hollenskum hagsmunum hér heima, þá er kannski ekki eftirsóknarvert fyrir Ísland að sjónarmið hennar rati í erlendar fréttir.
En þó Rósa Björk telji að allir verði að virða það að Jóhanna hafi ákveðið að nýta ekki þau færi sem Rósa Björk taldi þó að hún hefði, þá er það ekki svo að það sé ekkert sem Rósa Björk saknar úr umræðunni. Þar vantar mun brýnna mál en rödd forsætisráðherra Íslands: „En burtséð frá Jóhönnu hef ég saknað þess í fjölmiðlum að undanförnu að ekki sé talað við fleira fólk af erlendum uppruna sem hingað kom í uppsveiflunni.“