Þriðjudagur 22. september 2009

265. tbl. 13. árg.

Þ au segja líka sína sögu, smáatriðin. Á dögunum rakti Vefþjóðviljinn sárasaklaust dæmi um hugsunarháttinn á fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem fréttamaður gekk út frá því sem vísu, í frétt af frammíkalli í ræðu Obamas Bandaríkjaforseta, að forsetinn hefði þá verið „í óða önn að hrekja ýmsar staðhæfingar þeirra sem andvígir eru heilbrigðisstefnu hans“. Hér er annað dæmi, sárasaklaust líka, en segir samt örlitla sögu, ekki síst vegna þess hversu saklaus hún er.
Ríkisútvarpið sagði frétt af kosningabaráttunni í Grikklandi og svona hljómaði hún í heild:

Sósíalisaflokkurinn Pasok virðist í sterkri stöðu fyrir kosningarnar í Grikklandi 4. október ef marka má kannanir. Síðasta könnun, samkvæmt henni hefur Pasok um sjö prósentustiga forskot á Nýja demókrataflokkinn, flokk Karamanlis forsætisráðherra. Núverandi kjörtímabil var einungis hálfnað þegar Karamanlis ákvað að boða til kosninga, en stjórn hans hefur átt undir högg að sækja vegna afleiðinga kreppunnar og ýmissa hneykslismála. Papandreou, leiðtogi Pasok, segir að verði hann forsætisráðherra að kosningum loknum, muni hann fyrstu hundrað dagana í embætti leggja höfuðáherslu á að rétta við efnahag landsins og draga úr fjárlagahallanum.

Og hvað er nú um þessa meinleysislegu frétt að segja? Á Grikklandi berjast fylkingar hægrimanna og vinstrimanna. Íslenskir áheyrendur fá hér stuttan fróðleik um hvora fylkingu um sig. Um hægrimenn er það að segja að þeir hafa átt undir högg að sækja vegna afleiðinga kreppunnar og ýmissa hneykslismála. Um vinstrimenn er það að segja að þeir hafa lofað að leggja höfuðáherslu á að rétta við efnahag landsins og draga úr fjárlagahallanum.

Auðvitað hvarflar ekki að Vefþjóðviljanum að fréttastjóri, vaktstjóri og fréttamaðurinn sem samdi fréttina hafi setið leynifund um það hvernig hægt væri að koma höggi á Karamanlis og hans menn, en lyfta undir Papandreou. Fréttamaðurinn telur sig vafalaust hafa skrifað það sem er satt og rétt, hlutlausa frétt af fagmennsku, og hvorki fréttastjóra né vaktstjóra dettur í hug að nokkuð sé athugavert við fréttina. Þeir hafa gleymt henni um leið og Broddi var búinn að lesa hana. Hefðbundnir starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins sjá líklega nákvæmlega ekkert athugavert við fréttina. Velta því ekki fyrir sér hvort verið geti að Papandreou og hans menn hafi einnig verið gagnrýndir, eða hvort hugsanlegt sé að Karamanlis lofi líka öllu fögru.

Rétt eins og Obama var „í óða önn að hrekja ýmsar staðhæfingar“ andstæðinga sinna, þá berjast á Grikklandi annars vegar vinstrimenn sem ætla að bæta efnahaginn og hins vegar hægrimenn sem hafa yfir sér „ýmis hneyklismál“. Þannig lítur veröldin einfaldlega út, séð frá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Meðal annars þess vegna láta fréttamenn iðulega eins og þeir hafi í höndunum hneyksli er tengist hægrimönnum en sjá slíkt sjaldnast hjá vinstrimönnum. Þeir einfaldlega trúa því að heimurinn sé svoleiðis. Hvernig var nú fréttaflutningurinn hér af styrkjum fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar? Styrkir útrásar-manna til Samfylkingarinnar voru sambærilegir styrkjum sömu aðila til Sjálfstæðisflokksins, þegar málið var skoðað í heild, en það var enginn eltingarleikur gerður við forystumenn Samfylkingarinnar, engar afsagnarkröfur og aldrei minnst á endurgreiðslur. Mútur aldrei nefndar. Málið í fréttum einu sinni og aldrei nefnt framar. Enda skiptist heimurinn á fréttastofunni í hægrimenn sem glíma við hneykslismál og vinstrimenn sem vilja endurreisa efnahaginn.