Mánudagur 21. september 2009

264. tbl. 13. árg.

U m helgina var greint frá niðurstöðu samantektar KPMG um jaðarskatta í ýmsum löndum. Niðurstaðan var sögð sú, að hátekjuskattar hefðu undanfarin ár verið hæstir í heiminum í Danmörku en næsthæstir í Svíþjóð. Hátekjuskattur í Danmörku væri nú 62,3%, tak. Þetta myndi hins vegar breytast um næstu áramót og þá yrði Svíþjóð skattahæst en Danmörk næst.
Þegar vinstristjórnin var mynduð í vor, þá lögðu forkólfar hennar sérstaklega upp úr því að boða fréttamenn jafnan til fundar við sig í norræna húsinu, en til Skandinavíu skyldi nú sækja úrræðin.

Enda hafa álögur og skattar verið þungamiðjan í þeirri gjaldborg sem stjórnvöld hafa samfellt reist um íslensk heimili síðan.

UU ndanfarið voru fréttatímar undirlagðir af deilum vegna einhvers fyrirtækis sem nefnt var Magma, og vildi koma að orkuvinnslu hér á landi. Stjórnvöld og fréttamenn höfðu miklar áhyggjur af því að „útlendingar eignuðust auðlindirnar“ og var margt sagt um hvað hægt væri að gera til að hindra það. Aðrir kepptust við að fullyrða að það væru ekki þeir heldur einmitt Steingrímur J. Sigfússon sem hefði í raun fært „útlendingum auðlindirnar“.

Eitt var það sem sjaldan var rætt í fréttum. Það var sjaldnast útskýrt hvað fælist í því að útlendingar „eignuðust auðlindirnar“ og þá í framhaldinu, hvað væri að því, svona í stuttu máli.

Við hvað er átt, þegar sagt er að útlendingar eignist hér auðlindir? Tæplega óttast menn að útlendingarnar taki þær og fari með þær heim til sín. Ekki hverfa þær úr íslenskri lögsögu, þó útlendingur eignist þær. Íslenska ríkið hefði sömu heimildir og áður til að setja lög og reglur um nýtingu, framkvæmdir, umhverfisvernd, skatta, gjöld og annað sem íslenskum þingmönnum dettur í hug. Hvað ætli sé þá sem veki slíka ógn?

Segjum nú að í kvöld eignist einhver útlendingur Kröfluvirkjun. Hvað svo? Ekki fer hann með hana heim til sín. Halda menn að hann loki henni? Halda menn að hann hækki raforkuverðið upp úr öllu valdi svo Íslendingar sætu skjálfandi og rafmagnslausir? Það mætti setja lög um hámarksverð á raforku, ef þingmenn vildu. Vefþjóðviljinn hefur lítið sagt um þennan Magma-samning eða annað sem þessu tengist, en spyr fremur af forvitni en öðrum ástæðum: Hvað, nákvæmlega, er að því að útlendingur eignist auðlind, sem er ævarandi föst við Ísland og lýtur óskoruðu lagasetningarvaldi alþingis?