Laugardagur 12. september 2009

255. tbl. 13. árg.

E vrópusambandið hefur skorið upp herör gegn gömlu glóðarþráðarperunni og vill að menn noti svonefndar sparperur í staðinn. Glóperurnar verða því gerðar útlægar úr sambandinu á næstu árum. Máli sínu til stuðnings segir sambandið að sparperur eyði minni orku og endist margfalt lengur en gömlu perurnar og séu þar af leiðandi betri fyrir umhverfið og ódýrari kostur. Þessar fullyrðingar hafa svo sem verið dregnar í efa meðal annars vegna þeirra vandamála sem förgun sparperunnar hefur í för með sér. Þegar allir þessir kostir sem ESB tíundar eru hins vegar á vogarskálunum má furðu sæta að sparperurnar hafi ekki rutt glóperunum af markaðnum. En það er kannski vegna þess að ljósið frá sparperunum er allt öðru vísi en frá gömlu glóperunum.

Evrópusambandið veit auðvitað betur í þessum efnum sem öðrum en þegnar aðildarríkjanna og telur því sjálfsagt að velja perur í innkaupakerruna fyrir hinn fávísa mann. Embættismenn sambandsins vita líka meira um framleiðslu og þróun á ljósaperum en framleiðendur og vísindamenn og því telja þeir sjálfsagt að sparperurnar hafi ekki lengur samkeppni af gömlu glóperunni.

Veigamesta röksemd Evrópusambandsins gegn glóperunni er orkunýting hennar. Gróðurhúsalofttegundir puðrast út loftið til að framleiða raforkuna sem send er í glóðarþráðinn þar til hann lýsir. En þessi röksemd á ekki við á Íslandi. Hér er raforka til lýsingar ekki framleidd með brennslu á jarðefnaeldsneyti og henni fylgir því ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda. Miklu fremur væri ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort sparpera og kvikasilfrið sem hún inniheldur skili sér til förgunar.

En þótt aðstæður í orkumálum hér séu allt aðrar en á meginlandi Evrópu munu Íslendingar njóta þessarar tilskipunar ESB um ljósaperurnar áður en langt um líður. Þeim sem efast er bent á glæsilega reynslu Íslendinga af tilskipun sambandsins um innistæðutryggingar.