Helgarsprokið 13. september 2009

256. tbl. 13. árg.

S íðasta haust komu út tvær fróðlegar og forvitnilegar bækur um hið svokallaða Hafskipsmál, sem heltók opinbera umræðu á Íslandi rúmlega tuttugu árum áður. Örlögin höguðu því hins vegar svo, að útgáfa þeirra hvarf nær algerlega í skuggann á nýjum hremmingum atvinnulífsins. Var það að mörgu leyti leitt, því þessar vönduðu bækur fjölluðu um alvarleg mál, og væru raunar fróðleg lesning þeim sem halda vilja ná áttum í umræðunni nú, ekki síður en þeim sem fræðast vilja um átakatíma Hafskipsmálsins.

Þetta voru bækurnar Afdrif Hafskips eftir Stefán Gunnar Sveinsson og Hafskip í skotlínu eftir Björn Jón Bragason en báðir eru ungir sagnfræðingar. Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifar Kjartan Gunnar Kjartansson blaðamaður dóm um bók Björns Jóns og segir hana vera „afhjúpunarsagnfræði, greinargerð fyrir niðurstöðum sem hljóta að breyta hefðbundnum hugmyndum um Hafskipsmálið á róttækan hátt.“ Bókinni sé hins vegar „ekki ætlað að vera endanleg allsherjarúttekt á Hafskipsmálinu“ heldur segist höfundur hennar einskorða hana við þau atriði málsins sem ekki hafi verið almenningi kunn, en hann hafi dregið fram í dagsljósið með rannsóknum sínum.

Ekki er vafi á því, að báðar Hafskipsbækur síðasta árs njóta þess að mörgu leyti, að allnokkur tími er liðinn frá þeim atburðum sem þær fjalla um. Þannig blasir við, bæði nú þegar og mun verða æ meira áberandi eftir því sem lengra líður, að lunginn af því sem þegar hefur verið skrifaður um bankahrunið íslenska á síðasta ári, mun eldast illa. Afar sennilegt er að mjög margt af því sem skrifað hefur verið og sagt um bankahrunið, muni síðar talið hafa litast mun meira af opinberri umræður og andrúmslofti en af staðreyndum, og í sumum tilfellum af tilraunum til að leiða opinbera umræðu af einum stað, á annan.

Þar er reyndar komið að óþægilegum hlut. Oft virðist nefnilega að opinber umræða ráði meiru um framvindu mála hér á landi, en víða annars staðar. Hafskipsmálið byrjaði á stórfelldri fjölmiðlaumfjöllun og árásahrinu, meðal annars innan úr alþingi, og virðist sá æsingur hafa haft töluverð áhrif á þróun málsins og þær niðurstöður sem ýmsir aðilar komust að. Frá síðari árum þekkja menn dæmi um málaferli sem ekki síður voru rekin í fjölmiðlum, með eindreginni hjálp ýmissa álitsgjafa, stjórnmálamanna og jafnvel á alþingi, fremur en í dómsölum. Hvaða áhrif halda menn að æsingaumræða síðasta árs muni svo hafa á þá sem eiga að komast að opinberum niðurstöðum um bankahrunið

Hvaða líkur eru til að þeir standist þann gríðarlega opinbera þrýsting sem haldið er úti á hverjum einasta degi, og – eftir tilkomu netsins – allan sólarhringinn?

Sérstakur ríkissaksóknari vegna bankahrunsins hefur frá upphafi setið undir gagnrýni fyrir að geta ekkert, hafa enga reynslu, vera ekki nógu harður. Undir þessu situr hann þegar hann tekur ákvarðanir um rannsóknir og síðar ákærur. Annar aðili sem situr undir þrýstingi er svonefnd rannsóknarnefnd alþingis. Frammi fyrir henni er enginn málflutningur og enginn sem hefur það hlutverk að endurskoða álit hennar. Hverjum þurfa nefndarmenn þá að standa skil? Formlega séð, engum. En hverjir eru engu að síður í því hlutverki að geta haft áhrif á nefndarmenn og beitt þá þrýstingi? Það eru bumbuslagaranir sem í heilt ár hafa æpt „hvítþvottur hvítþvottur“, ef einhver tekur ekki undir nýjustu afsagnarkröfuna, það eru öskrarar umræðunnar sem æpa „spilling spilling, landráð“ oft á dag. Það er nafnlausi herinn sem fagnar skemmdum á einkaheimilum eða hvatti til þess að Valtýr Sigurðsson yrði „tekinn af lífi“, eins og sást hvatt til, undir nafnleynd, á víðlesinni frétta- og skoðanasíðu, þegar hann eitt sinn neitaði að hlýða heilagri Evu Joly. Þegar bent var á það opinberlega að að minnsta kosti einn nefndarmaður væri vanhæfur til að standa að áliti nefndarinnar, var því mætt með upphrópunum og sleggjudómum, en ekki rökum. Það er við þessar aðstæður sem búin var til „rannsóknarnefnd“, sem enginn fær að flytja mál sitt fyrir og enginn getur vísað áliti hennar til neins æðra aðila. Og hvenær sem þessi nefnd berst í tal, birtast álitsgjafarnir og segjast ætla sko aldeilis að fylgjast með því að nú verði enginn „hvítþvottur“. Álit nefndarinnar hefur þannig verulega verið gengisfellt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, löngu áður en það birtist.

Og vegna þess að slík opinber umræða á Íslandi á það til að snúa málum á haus, þá er afar mikilvægt að síðar komi fram vandaðar bækur, þar sem af yfirvegun og rökfestu er fjallað um hvað gerðist og hvað gerðist ekki. Í ritdómi sínum segir Kjartan Gunnar Kjartansson að Hafskipsmáls-bækurnar tvær hafi alls ekki úrelst, þó umræður um bankahrun hafi tekið athyglina síðustu mánuði. Þvert á móti raunar, því bækurnar séu

áminning um þá fordóma sem fjölmiðlar spila oft á, sem tækifærissinnaðir stjórnmálamenn gefa undir fótinn og hinn nafnlausi fjöldi gerir að sínum. Breski sagnfræðingurinn Hugh Trevor-Roper, segir m.a. í riti sínu Galdrafárið í Evrópu: „Útskúfun hluta samfélagsins verður ekki skipulögð, nema til komi atbeini lýðforingja, en hún kemur ekki til álita, nema fyrir tilstilli lýðsins sjálfs. Þannig var um nornaveiðarnar miklu.“
Hafskipsritin tvö minna okkur á, að mannréttindi og réttarríkiseinkenni eru ekki lagabókstafir, einir sér, heldur menningareinkenni sem ráðast ekki síst af siðferðisþreki þeirra sem standa eiga vörð um þau. Á slíkt reynir mest þegar á móti blæs og örvænting grípur um sig.

Þó sama haustið hafi komið út tvær bækur sagnfræðinga um Hafskipsmál, þá eru efnistök höfunda ekki hin sömu. Þannig segir í ritdómi Kjartans Gunnars að í bók Björns Jóns sé nánast ekkert fjallað „um hina miklu og oft mjög villandi og særandi fjölmiðlaumfjöllun sem málið fékk. Þó eru leidd að því þung rök að rannsókn skiptastjóranna hafi fyrst og síðast mótast af „fréttaflutningi“ Helgarpóstsins eða að a.m.k. að gengið hafi verið út frá sannsögli þeirra vitna sem jafnframt höfðu verið helstu heimildarmenn Helgarpóstsins. Þá er lítið fjallað um hið pólitíska fjaðrafok sem málið olli og ekkert um ýmsar pólitískar afleiðingar þess. Báðum þessum efnisþáttum er hins vegar vel til skila haldið í bók Stefáns Gunnars.“

Hafskipsmálum fylgdu stórfelldar nornaveiðar og stóryrðaglamur. Þó var ekki búið að finna upp bloggið. Útvarpsfréttir voru ekki á klukkutímafresti, sjónvarpsfréttir voru einu sinni á kvöldi, þá daga sem sjónvarpað var. En dagblöð voru gefin út, og eins og menn muna hömuðust Helgarpósturinn og Þjóðviljinn, sem þá var undir ritstjórn Össurar Skarphéðinssonar, í málinu og sýndu frumleika sinn meðal annars með því að kalla málið „fjörbrot nýfrjálshyggjunnar“.

Þegar fræðimenn koma löngu eftir Hafskipsmál, sem fóru þó fram í allt öðru fjölmiðlaumhverfi en nú ríkir, og færa fyrir því „þung rök“ að rannsókn opinberra aðila hafi „fyrst og fremst mótast af „fréttaflutningi““ helsta æsifréttamiðils þess tíma, hversu mikil er þá ekki hættan á að illa fari nú? Ekki er æsingurinn minni nú, þegar hægt er að halda honum við allan sólarhringinn. Sumir æsingamenn virðast varla ná að festa blund, svo ákafir eru þeir í baráttunni frá morgni til kvölds.

Með því er þó alls ekki sagt að ekki eigi að rannsaka hrun bankanna. Hættan er bara sú, að með hinni öfgakenndu umræðu síðustu mánaða, hafi möguleikanum á því að gera á málinu hlutlausa rannsókn, byggða á staðreyndum en ekki götuvisku, byggða á réttsýni en ekki hinni mannlegu löngun rannsakenda til að fá ekki skammir sjálfir, verið stórspillt. Hver og einn getur til dæmis í huganum sett sig í spor hins sérstaka ríkissaksóknara, Ólafs Þórs Haukssonar. Hvernig halda menn að fjaðrafokið yrði, um hann persónulega, um æru hans, heimili og fjölskyldu, ef hann kæmist að þeirri niðurstöðu að ekki væru lagarök fyrir því að ákæra stjórnendur helstu fyrirtækja? Sama á við um aðra þá sem rannsaka eiga bankahrunið. Hvaða mark mun framtíðin taka á ákærum, dómum og rannsóknarniðurstöðum sem verða til í núverandi andrúmslofti? Stundum mætti ætla að æsingaumræðunni væri beinlínis haldið úti af þeim aðilum sem mesta ástæðu teldu sig hafa að óttast ákærur og dóma. Allt til að niðurstöðurnar verði síðar afgreiddar sem nornaveiðar.

Í ritdómi sínum um bók Björns Jóns Bragasonar segir Kjartan Gunnar Kjartansson meðal annars:

Í lok meginmálsins er svo tíu blaðsíðna kafli þar sem dregnar eru saman helstu niðurstöður höfundarins. Það var vel til fundið og kemur erindi bókarinnar betur til skila. Í þessari heimfærslu kemur hógværð höfundarins skemmtilega í ljós. Hann er afskaplega spar á að draga víðtækar eða afgerandi ályktanir af niðurstöðum sínum sem þó eru býsna athyglisverðar og jafnvel oft lyginni líkastar. Hann er vægast sagt enginn smiður samsæriskenninga. Maður veltir fyrir sér við lestur bókarinnar hvort ekki hafi verið freistandi fyrir höfundinn að kveða stundum sterkar að orði og jafnvel ásaka einstaklinga um afglöp og siðblindu. En það er ekki hans stíll. Hann heldur ró sinni og skýtur aldrei yfir markið.
Þessi hófstilling höfundarins stingur skemmtilega í stúf við það róttæka hlutverk bókarinnar að ráðast gegn aldarfjórðungs gömlum goðsögnum um Hafskipsmálið, fletta ofan af ótrúlegu samsæri, og færa rök fyrir afglöpum og jafnvel lögbrotum manna sem í dag gegna afar háum embættum. Og þó hógværð sé dyggð, þá virkar hún ekki síður skemmtilegt stílbragð við þessar aðstæður og eykur óneitanlega á trúverðugleika verksins.