Föstudagur 11. september 2009

254. tbl. 13. árg.

H ún er kannski ekki jafn fjarstæðukennd og hún hljómar í fyrstu, hugmyndin sem sagt er að hafi orðið vinsæl, þegar eftir andlát Helga Hóseassonar, að honum yrði reistur minnisvarði. Einhverjir munu meira að segja hafa lagt til að honum yrði reist stytta sem sýndi hann með skilti á Langholtsveginum. Samfylkingin hefur lagt til að Reykjavíkurborg hefji þegar undirbúning málsins.

Vissulega hljómar þessi hugmynd ekki sérstaklega vel í upphafi. Maður sem í öndverðu getur sér orð fyrir að ráðast að setningu alþingis og kasta skyri yfir Kristján Eldjárn forseta Íslands, Sigurbjörn Einarsson biskup og þingheim, er kannski ekki brýnasta verkefnið þegar kemur að því að reisa styttur, sérstaklega ekki ef hið opinbera á að taka þátt í því, hvernig sem hinum látna hefði annars líkað sú hugmynd.

En þegar málið er hugsað betur, má kannski segja að fyrir minnisvarða um baráttu Helga séu ýmis rök. Og kannski ekki endilega þau sem þeim, sem snobba ákaflega fyrir öllu því sem byrjar á „mótmæla-“, dettur fyrst í hug. Þetta blað hefur oft haldið því fram að margir þeir, sem hátt láta um mannréttindabrot sem þeim þykja framin á Íslandi, geri ósmekklega lítið úr aðstæðum þess fólks sem raunverulega býr við alvarleg mannréttindabrot. Fjölmiðlamenn og álitsgjafar, sem árum saman tala opinberlega um það hversu ritskoðaðir og kúgaðir þeir séu, í ógnarsamfélagi, gera til dæmis mjög lítið úr aðstæðum þeirra sem í raun búa við ritskoðun, kúgun og önnur mannréttindabrot.

Kannski myndi það opna augu ýmissa Íslendinga, ef þeir þyrftu einn daginn að benda erlendum gesti á styttu af „mótmælanda Íslands“, sem áratugum saman barðist árangurslaust fyrir sínu hjartans mannréttindamáli, að biskup Íslands lýsti því yfir að samningur mótmælandans og Guðs væri niður fallinn.

Ekki síður væri táknrænt fyrir það, hversu óhætt fólki er að mótmæla á Íslandi, að frægasti mótmælandi landsins stóð áratugum saman óáreittur á sama stað með skiltið sitt.

Minnisvarði um mótmælandann með skiltið gæti þannig haft ýmis rök með sér.

Og ekki stóð hinn látni mótmælandi grímubúinn með skiltið sitt.