R íkisútvarpið sagði á dögunum miklar fréttir af því að Landsvirkjun hefði samið við Flóahrepp um að greiða þann kostnað sem hreppurinn annars hefði af breytingum á deiliskipulagi, sem nauðsynlegar væru vegna framkvæmda Landsvirkjunar í sveitarfélaginu. Leitaði fréttastofa Ríkisútvarpsins mjög eftir áliti Atla Gíslasonar, alþingismanns kjördæmisins, á málinu og hafði Atli ýmis stór orð um Landsvirkjun. Var þeim slegið upp.
Fréttastofan lét þess ekki getið, að Atli Gíslason tengist málinu ekki fyrst og fremst sem alþingismaður. Í öðru starfi sínu, sem lögmaður, hefur hann hins vegar flutt mál fyrir Hæstarétti og krafist þess að Landsvirkjun verði dæmt óheimilt að standa að framkvæmdum á svæðinu með þeim hætti, sem hann kvað fyrirtækið ætla sér. Hæstiréttur vísaði kröfu umbjóðanda Atla frá.
Það væri kannski ástæða fyrir fréttastofuna að láta hlustendur vita, þegar hún leitar sérstaklega til lögmanns, sem hefur ítrekað rekið mál á hendur Landsvirkjun vegna framkvæmda, til að ræða sem alþingismaður um málefni sama fyrirtækis.
RR íkisútvarpið sagði frá því sérstakri frétt að kallað hefði verið fram í ræðu Baracks Obama er hann hefði ávarpað Bandaríkjaþing í gærkvöldi. Auðvitað eru orðljót frammíköll alls ekki til fyrirmyndar og hlutaðeigandi almennt til skammar. En hvar ætli Obama hafi verið staddur í ræðunni, þegar þetta ódæði var framið, samkvæmt íslenska ríkisútvarpinu? Jú í fréttinni sagði: „Þegar Bandaríkjaforseti var rétt um það bil hálfnaður með ræðu sína og var í óða önn að hrekja ýmsar staðhæfingar þeirra sem andvígir eru heilbrigðisstefnu hans, hrópaði einn þeirra…“
Nei það vefst nú ekki fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins að Obama hafi hrakið staðhæfingar andstæðinga sinna.
RRR íkisútvarpið sagði frá því að erindi auðugra Japana, sem hér hefðu viljað fjárfesta, hefði dagað uppi við ríkisstjórnarskipti í vetur. Erindið hefði verið kynnt fjármálaráðuneytinu en nú segðist Steingrímur J. Sigfússon ekkert um það vita og líklega hefði málið „fallið milli skips og bryggju“. Já, það var líka mjög mikilvægt, á örlagatímum í efnahagsmálum, að flæma ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins úr starfi um leið og nýr ráðherra tók við. Alls ekki að hafa samfellu í yfirstjórninni.