Í maí, þegar rammasta vinstristjórn Íslandssögunnar hafði tekið við völdum, og fyrirséð var nær algert gagnrýnileysi útbreiddustu fjölmiðla í hennar garð, spurði Vefþjóðviljinn hvað borgaralegir Íslendingar ættu að taka til bragðs, þegar yfir vofðu fjögur ár af slíku. Svaraði blaðið sjálfu sér þessu:
„1. Þrauka. 2. Styrkja Andríki. 3. Gerast áskrifendur að Þjóðmálum. 4. Muna að öll él styttir upp um síðir og dagur fylgir nótt.
Þeir lesendur sem fóru að ráðleggingu númer þrjú fá í vikunni sitthvað fyrir snúð sinn, því út er komið hausthefti tímaritsins Þjóðmála og er sem fyrr sneisafullt af vönduðu og fróðlegu efni. Tímaritið er ómetanleg vin í eyðimörk þeirrar vinstrislagsíðu sem er á fjölmiðlum og opinberri umræðu á Íslandi þessi misserin.
Í nýjasta heftinu kennir margra grasa. Þjóðmál birta ýtarlegt viðtal við Guðna Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og síðast formann Framsóknarflokksins, og er óhætt að segja að Guðni láti menn heyra það. Meðal þeirra sem fá sinn skerf eru Halldór Ásgrímsson, Samfylkingin og margir fleiri. Guðni ræðir „REI-málið“ og „fjölmiðlamálið“ og segir að þegar stjórnmálavaldið hafi orðið undir í fjölmiðlamálinu hafi fátt verið eftir sem stöðvað hefði útrásarmenn, og „hjarðeðlið“ tekið við.
Páll Vilhjálmsson, fyrrverandi ritstjóri Vikublaðsins, arftaka Þjóðviljans, skrifar um framgöngu, „hugsjónir, völd og svik“ núverandi forystu vinstrigrænna, en Páll var einn kjósenda flokksins í alþingiskosningunum í vor; Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur ritar um æsingaskrif Þorvaldar Gylfasonar prófessors og telur hann ekki fara í „málefnalegt manngreinarálit“ þegar hann fjallar um fólk á opinberum vettvangi; bankamaðurinn Einar Sigurðsson skrifar yfirgripsmikla og fróðlega grein um stórfellt klúður stjórnvalda við meðferð og afgreiðslu Icesave-málsins. Greinin er nauðsynleg en hrollvekjandi lesning sem ástæða er til að mæla eindregið með.
Margt fleira áhugavert er í hausthefti Þjóðmála. Jón Ríkharðsson sjómaður fjallar um þær árásir sem Sjálfstæðisflokkurinn og einstakir forystumenn hans hafa sætt og rekur ósanngirnina í mörgu því sem þar hefur verið haldið stíft að fólki; Atli Harðarson, einn allra skýrasti heimspekingur og þjóðfélagsrýnir landsins þessi árin, skrifar um heimspekirit Kristjáns Kristjánssonar prófessors og segir heimspeki hans njóta „sívaxandi álits og virðingar í alþjóðlegum fræðaheimi“; Bjarni Jónsson verkfræðingur fer hörðum orðum um skýrslu sem Steingrímur J. Sigfússon lét vinna um afrakstur orkusölu til erlendrar stóriðju. Segir hann skýrsluna gagnslausa og með útgáfu hennar dreifi fjármálaráðherra röngum eða villandi upplýsingum; Ólafur Egilsson, fyrrverandi sendiherra, skrifar um Kína og uppgang þess, en sumir spá því að um miðja þessa öld verði hagkerfi Kína helmingi stærra en Bandaríkjanna; Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skrifar um siðferðilegt endurmat kommúnismans, og margt fleira má finna í Þjóðmálum, tengt þjóðmálum og menningu.
Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis og kostar árgangurinn aðeins 4.500 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald. Eins má í bóksölu Andríkis kaupa stök hefti tímaritsins.