Helgarsprokið 23. ágúst 2009

235. tbl. 13. árg.
Þ að hefur ekki farið milli mála, mánuðina frá bankahruni, að fjölmargir hafa mjög hamrað á því að gamall óvinur þeirra, „frjálshyggjan“, eigi sérstaka sök á því hvernig komið sé í íslenskum efnahagsmálum. Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn tala skýringalaust, og án þess að vera spurðir frekar, um einhverja „nýfrjálshyggju“ sem hér hafi vaðið uppi, álitsgjar tóna undir að hér hafi verið gerð „frjálshyggjutilraun“, sem auðvitað hafi farið illa. Nú sé tími til kominn að gleyma frjálshyggjunni, sem hér hafi brugðist, og leita nýrra leiða, helst einhvers konar skandinaívsks sósíalisma, með samfelldri aukningu opinberra útgjalda og hækkandi sköttum.

Og nú leggja vinstrimenn á þingi nótt við dag til að reyna að tryggja að kostnaður af hruni Landsbanka Íslands hf. leggist á skattgreiðendur. Þegar þeir hafa barið það í gegn, þá ætla þeir að kenna „frjálshyggjunni“ um það líka.

Færri hafa þó haft fyrir því að rökstyðja það, hvernig „frjálshyggjan“, sem þeir töldu sig hafa staðið að verki, hafi nú komið öllu í þrot. Eins og oft hefur verið bent á, þá giltu gríðarlega umfangsmiklar reglur á íslenskum fjármálamarkaði og ríkið kom upp sérstakri eftirlitsstofnun, Fjármálaeftirlitinu, sem hafði víðtækar heimildir til að skipta sér af fjármálafyrirtækjunum. Ekki var rekstrarfé þeirrar stofnunar skorið við nögl heldur var það aukið verulega ár frá ári. Hefur líka verið lítið um það að stóryrðamenn hafi bent á nákvæmlega hvaða reglur það hafi verið, sem hin vonda frjálshyggja hafi hindrað, sem hefðu komið í veg fyrir þrot bankanna, ef þær hefðu bara verið settar.

Og þeir sem nú sitja kokhraustir í ríkisstjórn. Hafa þeir beint á mörg lagafrumvörp sem þeir hafi lagt fram, en vondir frjálshyggumenn fellt, sem hefðu einmitt komið í veg fyrir að bankarnir kæmust í þrot?

Suma langar óskaplega til að kenna stjórnvöldum, og þá ekki aðeins þeim sem sátu þegar bankahrunið varð og misserin þar á undan, um allt. Til þess að reyna að ná því fram þylja þeir að einkavæðing bankanna, áratug fyrr, hafi verið öll hin versta starfsemi. Þeir sömu hafa að vísu ekki kunnað við að segja að þeir hefðu viljað að bankarnir hefðu alls ekki verið seldir og að íslenska ríkið yrði það eina á Vesturlöndum sem sjálft ræki allar helstu fjármálastofnanir landsins. En þá er í staðinn farið í það að segja að rangir menn hafi keypt og ekki á nógu háu verði.

Ef að fallist yrði á þessa kenningu, að rangir menn hafi eignast bankana og þess vegna hafi bankarnir komist í þrot tæpum áratug síðar, þá er mesta furða að álitsgjafarnir segi ekki að selja hefði átthlutabréfin í bönkunum með þeim skilyrðum að þessir tilteknu menn mættu ekki eignast þau síðar. Og ekki er nú sú kenning sérstaklega sannfærandi, að bankarnir hefðu síður komist í þrot árið 2008 ef þeir hefðu verið seldir milljarðinum hærra verði áratug áður.

Bankarnir voru einkafyrirtæki sem komust í þrot. Það sýnir kannski betur en margt annað, hversu fjarlægt það er að Ísland sé eða hafi verið „frjálshyggjuríki“, að áköfustu álitsgjafar landsins leita fyrst og fremst hjá ríkinu að skýringum þess að rekstur þessara einkafyrirtækja hafi farið eins og hann fór. Að þessi eða hin opinbera stofnunin hafi ekki varað við þessu eða athugað hitt. Að ríkisstjórnin sem sat fyrir áratug hafi selt röngum mönnum og á röngu verði. Að einhvern veginn hafi ríkið átt að koma í veg fyrir að bankar gætu komist í þrot, og fyrst bankarnir hafi komist í þrot, þá hljóti það að vera ríkinu að kenna.

Þegar mönnum er bent á að frjálshyggjan, sem kennt er um bankahrunið, hafi bara hreint engu ráðið um það hvaða reglur giltu eða giltu ekki á íslenskum fjármálamarkaði, geta þeir fengið yfir sig fimmeyringasvör eins og: „Einmitt. Þetta sögðu kommúnistar líka eftir hrun austantjaldsríkjanna. Að þar hefði ekki verið fylgt raunverulegum kommúnisma. Þið eruð alveg eins.“

Það er á mörkunum að slík vitleysissvör kalli á frekari umræðu. En af því að slík einfeldningaspeki er margendurtekin þá mætti benda á, að með þessari röksemdafærslu mætti kenna hverjum sem er um bankahrunið. Vefþjóðviljinn gæti hæglega slengt því fram, að í raun væri bankahrunið því að kenna að skátahreyfingin hefði ráðið hér lögum og lofum og á fjármálamarkaði hafi ekkert gilt nema skátaeiðurinn. Þegar skátar brygðust ókvæða við, og vildu að bent yrði á hverju þeir hefðu í raun ráðið, þá mætti svara eins og múgæsingamennirnir og segja: Hva þið eruð bara eins og gömlu kommarnir.

Og nú leggja vinstrimenn á þingi nótt við dag til að reyna að tryggja að kostnaður af hruni Landsbanka Íslands hf. leggist á skattgreiðendur. Þegar þeir hafa barið það í gegn, þá ætla þeir að kenna „frjálshyggjunni“ um það líka.