Laugardagur 22. ágúst 2009

234. tbl. 13. árg.

F réttavefur Viðskiptablaðsins sagði frá því í gær að sjálfur fjármálaráðherra Hollands hefði lýst því yfir að innistæðutryggingakerfi Evrópusambandsins væri ekki hugsað til að koma til, ef um svokallað kerfishrun væri að ræða, heldur eingöngu ef einstakur banki færi í þrot. Fjármálaráðherra Hollands, annars þess ríkis sem gerir Icesave-kröfurnar sem íslenska ríkisstjórnin er svo áfjáð í að samþykkja – sennilega í þeirri von að pólitískum andstæðingum hennar verði síðar kennt um, en ekki henni – hann viðurkennir með öðrum orðum það, sem ótal fræðimenn hafa bent á, fyrir daufum eyrum íslenskra ráðamanna, að innistæðutryggingakerfinu er ekki ætlað að koma til skjalanna við aðstæður eins og urðu á Íslandi.

Og hvað hafa nú íslensku Icesave-fjölmiðlarnir, eins og fréttavefur Morgunblaðsins eða Ríkisútvarpið, gert með þessi tíðindi frá sjálfum fjármálaráðherra Hollands? Nákvæmlega ekkert. Sigurður Kári Kristjánsson vakti fyrstur athygli á þessum orðum fjármálaráðherrans á heimasíðu sinni og fréttavefur Viðskiptablaðsins vitnaði til þess, en aðrir fjölmiðlar gæta þess að þegja eins og steinar, allt þar til þingmenn hafa endanlega látið plata sig til að samþykkja Icesave-ánauðina.

En fram að því, verður ekkert sagt sem gæti vakið þingmenn.

S umir virðast halda að aldrei hafi fyrr en nú gefið á bátinn hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu. Því miður er það ekki svo, og áratugum saman voru slæmar fréttir af efnahagsmálum viðtekið efni í fréttatímum. Svo breyttist það og efnahagslegur uppgangur varð hér einstakur, ár eftir ár, þó margir leggi núna mikið á sig til að gleyma því .

Fyrir aldarfjórðungi, árið 1984, kom út ljóðabókin Ydd, eftir Þórarin Eldjárn. Þar er þetta stutta ljóð, sem skýrir sig sjálft

Hús næði

Gefast ekki grið

í griðastað

guðað á glugga

bankastjórans:

má ég vera?

heima