Föstudagur 21. ágúst 2009

233. tbl. 13. árg.

S íðari tíma mönnum verður alger ráðgáta, hvaða almennu blindu svonefndir þingmenn hafa verið slegnir nú í sumar. Það ótrúlega frumvarp um ríkisárbyrgð vegna Icesave-reikninga, sem þeir virðast ætla að afgreiða sem lög frá alþingi, er með þvílíkum ólíkindum. Og „fyrirvararnir“ sem þetta fólk heldur að það setji, eru slíkur skrípaleikur að enginn þingmaður, sem þessum vellingi greiðir atkvæði sitt, ætti að búast við að njóta virðingar framvegis.

Tökum dæmi. Eitt allra mikilvægasta atriði þessa máls, er að enginn þar til bær aðili hefur nokkurn tíma skorið úr um að íslenska ríkinu beri að bæta grænan eyri vegna Icesave-reikninganna. Af einhverjum stórundarlegum ástæðum neitar ríkisstjórnin alfarið að láta Ísland njóta slíks réttar. Og hvernig ætli sé nú tekið á þessu nær ólýsanlega mikilvæga atriði í „fyrirvörunum“ sem svokallaðir alþingismenn telja sig setja við ríkisábyrgðina.

Má Vefþjóðviljinn biðja lesendur um að halda sér fast.

Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar segir um þetta

Ekki hefur fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland þótt það hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr þessu álitaefni skorið. Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að slík ábyrgð hvíli ekki á Íslandi eða öðrum aðildarríkjum EES-samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.

Og hvað þýðir þetta? Það er varla að hægt sé að pína sig til að svara spurningunni. Jú, íslenska ríkið mun auðvitað ekki leita réttar síns og ekki einu sinni krefjast þess af gagnaðilum sínum að þeir fái kröfur sínar viðurkenndar fyrir dómi. En ef einhvern tíma seinna gerist það, að í einhverju öðru ríki kemst meginþorri viðskiptabankanna í þrot, og það ríki hefur betur í málaferlum við önnur Evrópusambandsríki og slegið verður föstu fyrir dómi að einstök ríki, og þá þar með Ísland, beri ekki ábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum, þá segir í hinum gríðarlega merkilegu fyrirvörum íslenskra alþingismanna, að þá sé ríkisábyrgðin með fyrirvara um að „fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.“

Nú er auðvitað ekki líklegt, eðli málsins samkvæmt, að algert kerfishrun verði á næstunni í hinum stærri ríkjum álfunnar. En jafnvel þó að svo fari, og að það ríki hafi betur í málaferlum og slegið verði föstu með dómi að engin greiðsluskylda hvíli á því ríki, og þar með ekki á Íslandi, jafnvel þá verður ríkisábyrgðin ekki úr sögunni. Nei, í hinum stórmerkilegu „fyrirvörum fjárlaganefndar“, þá myndu slíkar aðstæður, að búið sé að dæma að engin greiðsluskylda hvíli á Íslandi, aðeins á „viðræður“. Bretar og Hollendingar senda einfaldlega hingað sendinefnd, hún á stuttar viðræður, og svo eiga Íslendingar að borga þá skuld sem beinlínis er búið að dæma að þeir eigi ekki að borga. Já, þeir eru töffarar, þeir í fjárlaganefnd.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, er sagt frá fræðilegri ritgerð um innstæðutryggingar út frá Evrópulöggjöf, sem skrifuð var árið 2003, og birt í tímaritinu Journal of International Banking Regulation. Höfundur ritgerðarinnar er dr. Nevenko Misita við lagastofnun Stokkhólmsháskóla, og það eykur þýðingu ritgerðarinnar að hún var rituð löngu áður en heimskreppa skall á og bankar hrundu um allan heim. Ritgerðin er því ósmituð af núverandi hagsmunum einstakra ríkja en fjallar eingöngu um hvaða réttur gildir í málinu.

Ritgerðin er athyglisverð, þó fátt í henni þurfi að koma á óvart, þeim sem hvorki sitja í samninganefnd Bretlands né á alþingi Íslendinga, en það munu vera þeir tveir hópar manna sem minnstan áhuga hafa á því hvað lög og reglur segja í þessum málum.

Dr. Misita kemst að þeirri niðurstöðu að einstökum ríkjum sé ekki beinlínis bannað að leggja til fjármuni ef innstæðutryggingasjóður kemst í þrot, þó slík inngrip verði að vera alger undantekning. Meginreglan hljóti að vera sú, að innstæðutryggingasjóðir séu fjármagnaðir með gjaldtöku af fjármálastofnunum „og ekki af almannavaldinu“. Enn fremur kveði ein tilvísun Evróputilskipunarinnar harla fast að orði um að hún geti ekki falið í sér fjárhagslega ábyrgð aðildarríkjanna.

Í ritgerðinni rekur dr. Misita þau sjónarmið sem uppi séu í málinu. Segir hann að ef réttur væri sá skilningur, að ríkinu væri skylt að hlaupa undir bagga með gjaldþrota innstæðutryggingarsjóði, sé ljóst að fjölmörg aðildarríki hefðu ekki innleitt tilskipunina með réttum hætti, enda hefðu þau mörg skorið á hvers kyns ríkisábyrgð.

Einhvern veginn er ekki líklegt að íslensku Icesaveánauðar-fjölmiðlarnir muni segja frá þessari ritgerð, sem er auðvitað í sömu átt og flest annað sem fræðimenn hafa ritað um málefnið. En hvernig ætli þeir létu ef dr. Misita hefði talað á hinn veginn? Sennilega yrði langri þýðingu á ritgerðinni skotið inn á milli reglulegra viðtala Spegilsins við Indriða Þorláksson um það „hvað gerist ef Icesave verður hafnað“, og dr. Misita kæmist sennilega í eitt Reykjavíkurbréf.

En eins og venjulega, íslensku Icesave-fjölmiðlarnir munu þegja um þetta eins og annað sem þeir vilja ekki að komi fyrir augu og eyru áhorfenda og lesenda. Og þingmenn verða auðvitað jafn ósnortnir og áður. Þeir eru enn að faðmast eftir að „samstaða náðist í fjárlaganefnd“.

Þetta er nú einu sinni mikilvægasta og dýrasta mál sem alþingi hefur fengið til úrlausnar síðustu áratugi, ef ekki aldir. Kannski er það þess vegna sem fjölmiðlar útskýra ekkert sem máli skiptir, en hafi nær allir þagnað jafnskjótt og „samkomulag náðist um fyrirvara í fjárlaganefnd“, og allir föðmuðust.

H efur annars nokkur einasti fjölmiðill látið svo lítið að útskýra með einföldum hætti, hvað felst í „fyrirvörum fjárlaganefndar“ og hvað ekki? Bara þetta atriði sem Vefþjóðviljinn rakti hér að ofan, hið fullkomlega bitlausa ákvæði sem hér var rakið og skýrt, hefur einhver fjölmiðill skýrt það eða önnur álíka stórvirki fjárlaganefndarmanna?

Þ egar enginn hefur kveðið upp úr með það að Ísland beri ábyrgð á þessum innstæðum, þegar hver virti lögfræðingurinn á fætur öðrum kemst beinlínis að gagnstæðri niðurstöðu, jafnvel menn sem árum saman hafa aldrei orðið sammála um neitt eru sammála um þetta augljósa atriði, þá hamast íslenska ríkisstjórnin, með áköfum stuðningi Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins, í að fella sem mesta skyldu á íslenska ríkið, svo tjón þess verði sem mest. Stjórnarandstaðan skilur engan veginn alvöru málsins og heldur að hún eigi engan kost nema elta ríkisstjórnina. En forkólfar vinstrimanna fá þann draum uppfylltan að tap einkabanka lendi á skattgreiðendum.

Stjórnarandstaðan á einn kost. Þingmenn hennar verða að vakna af höfganum og greiða atkvæði gegn þessu brjálæði. Þeir þingmenn, sem halda að „fyrirvarar fjárlaganefndar“ séu nothæf niðurstaða, gera meiri mistök en sumir þeirra gerðu við stjórnarmyndun fyrir tveimur árum.