Í vikunni hefur Vefþjóðviljinn birt niðurstöður nokkurra skoðanakannana sem Andríki fól Capacent-Gallup að gera. Niðurstöður þriggja kannana hafa þegar verið birtar og eitthvað er óbirt enn. Vöktu niðurstöðurnar töluverða athygli, bæði hér á landi og meðal erlendra miðla, þó fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi raunar ekki heyrt þeirra getið enn, sem enginn hafði heldur búist við.
Slíkar kannanir eru vissulega ekki gerðar frítt og vill Vefþjóðviljinn því ítreka þær þakkir sem blaðið hefur af og til borið fram til þeirra lesenda þess sem styrkja það fjárhagslega, hvort sem er með einstökum greiðslum eða reglulegum með greiðslukorti. Allur kostnaður við rekstur blaðsins, sem og önnur tiltæki útgefandans, er greiddur af frjálsum framlögum lesenda blaðsins.
En þó hingað til hafi allt verið greitt með frjálsum framlögum einstaklinga, þá er kannski ekki ástæða til að takmarka sig með slíkum hætti. Því hefur blaðið ákveðið að krefjast þess hér með að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra greiði blaðinu persónulega eina milljón króna á ári, næstu tuttugu árin.
Að vísu hefur enginn til þess bær aðili kveðið upp úr með að Gylfa sé skylt að greiða þessa fjárhæð, en hann ætti að ráða við það.
Og eins og menn vita þá þarf Gylfi ekki annað, til að viðurkenna greiðsluskyldu.
Þeir lesendur, sem vilja taka þátt í þjóðmálabaráttunni með því að bætast í hinn ágæta hóp styrktarmanna Vefþjóðviljans, geta gert það um hlekk vinstra megin á síðunni. Blaðið þakkar þeim.