Gregory: “Is there any other point to which you would wish to draw my attention?” Holmes: “To the curious incident of the dog in the night-time.” Gregory: “The dog did nothing in the night-time.” Holmes: “That was the curious incident.” |
– Arthur Conan Doyle, Silver Blaze. |
S íðustu tvo daga birti Vefþjóðviljinn niðurstöður þriggja skoðanakannana sem Andríki fékk Capacent-Gallup til til að gera og fjölluðu um tvö heitustu deilumál landsins þetta árið, Evrópusambandsaðild og frumvarp ríkisstjórnarinnar um ábyrgð íslenska ríkisins á icesave-skuldum Landsbankans. Kannanirnar um Evrópusambandsaðild voru þær fyrstu og einu sem birst hafa um það málefni síðan Alþingi ákvað að Ísland skyldi óska eftir inngöngu í sambandið og könnunin um Icesave-frumvarpið er sú eina sem birst hefur um það málefni. Fór því ekki hjá því að niðurstöðurnar þættu fréttnæmar og áhugaverðar.
Reyndar hafa þær ekki aðeins vakið athygli innanlands. Erlendar fréttasíður um Evrópumál fjölluðu strax um Evrópusambandskannanirnar, sömuleiðis fréttaveitur um fjármálamarkaði um Icesave könnunina, erlendir stjórnmálamenn sýna þeim athygli og niðurstöðurnar voru ekki dagsgamlar þegar um þær mátti lesa á vefalfræðiritinu Wikipediu svo nokkuð sé nefnt. Meira að segja hið mjög svo Evrópusambands- og Icesave-sinnaða íslenska Morgunblað sagði frá niðurstöðunum, þó blaðið hafi vissulega ekki gert mikið úr þeim.
Þetta er allt nefnt til gamans vegna þess að Vefþjóðviljinn getur ekki stillt sig um að segja frá skemmtilegustu fjölmiðlaviðbrögðunum, sem reyndar voru þau sem komu honum síst á óvart. Einn fjölmiðill hefur bara alls ekki heyrt af þessum könnunum, þeim einu sem gerðar hafa verið í sumar á þessum heitu deilumálum. Þeir sem búa svo illa að fá allan sinn fróðleik um heiminn frá „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ hafa ekki hugmynd um að þessar skoðanakannanir hafi verið gerðar. „Fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur undanfarna tvo sólarhringa ekki nefnt þær einu aukateknu orði – og voru Icesave-mál þó mjög í fréttum í gær, þegar fréttastofan hamraði á því að nú væri alveg að takast að fylkja öllum stjórnarþingmönnum saman um flokkslínuna í málinu.
Alveg óháð því hvaða skoðun menn hafa á Evrópusambandinu og því hvort skattgreiðendur eigi að gangast í ábyrgð vegna Icesave-reikninganna: Dettur einhverjum í hug að eðlilegt fréttamat hafi ráðið því að afgerandi niðurstöður marktækra Gallup-kannana um þessi mál, við núverandi aðstæður, væru aldrei nefndar í fréttatímum? Aðeins 19,6% segjast vera hlynnt helsta máli ríkisstjórnarinnar en 67,9% andvíg því, og „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ segir ekki frá því, og er hún þó að tala um þetta sama þingmál fremst í öllum fréttatímum.
En raunar taldi „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ eina skoðanakönnun eiga erindi við landsmenn í gær. Í áríðandi frétt hennar í gær kom fram að samkvæmt könnun sem gerð hafði verið fyrir tímaritið Insight China njóti vændiskonur meira trausts en stjórnmálamenn og vísindamenn í Kína. Mests trausts njóti þó bændur. Meðal annarra frétta, sem „fréttastofunni“ þóttu fréttnæmari en gríðarleg andstaða við Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar, voru þau stórtíðindi að þolinmæði Súðavíkurhrepps gagnvart landeigendum á Garðsstöðum er nú „á þrotum“, aukaleikara vantar í kvikmynd sem nú er unnið að í Dölunum, tjaldsvæði vantar í Vesturbyggð, matjurtagarður var eyðilagður í Kópavogi og matvælastofnun hefur hrint af stokkunum verkefni sem kallast „útivist nautgripa“. Daginn áður náðu mótmæli Samtaka herstöðvaandstæðinga á Norðurlandi í aðalfréttatíma útvarpsins, en ekki ný Gallup-könnun um Evrópusambandsinngöngu.
Þetta verður enn skemmtilegra þegar haft er í huga að „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur nú stundum verið þeirrar skoðunar að niðurstöður skoðanakannana um Evrópumál séu mjög fréttnæmar, jafnvel talið þær svo forvitnilegar að hún kostar sjálf gerð þeirra af naumu fé sínu. En þá hefur líka verið hægt að slá upp stríðsfyrirsögnum sem gagnast í baráttunni. Ekki eitthvert leiðindapíp um að menn vilji ekki ganga inn og styðji hreinlega ekki Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.
„Fréttastofu Ríkisútvarpsins“ var bent á að fram væru komnar niðurstöður Gallup-kannana um þessi heitu deilumál. Þögnin var ekki af því að „fréttastofan“ vissi ekki af niðurstöðunum. „Fréttastofan“ tók einfaldlega ákvörðun um að áheyrendum og áhorfendum kæmu þær ekkert við. Eða öllu heldur, slíkar ákvarðanir taka einstaklingar en ekki stofnanir. Fréttastofunni stýrir Óðinn Jónsson fréttastjóri, á ábyrgð Páls Magnússonar útvarpsstjóra.
Fréttir „Fréttastofu Ríkisútvarpsins“ af hinum fróðlegu niðurstöðum Gallup-kannananna reyndust á endanum vera það langfróðlegasta við þær.