Miðvikudagur 5. ágúst 2009

217. tbl. 13. árg.

Í gær sagði Vefþjóðviljinn frá niðurstöðum tveggja skoðanakannana sem Andríki lét gera í síðasta mánuði. Var jafnframt tekið fram að niðurstöður fleiri kannana kæmu síðar. Niðurstöður einnar könnunar koma þá í dag.

Hugsanleg innganga Íslands í Evrópusambandið hefur verið eitt helsta deilumál sumarsins. Fór því ekki hjá því að niðurstöður skoðanakannana um það málefni, þeirra fyrstu frá því tekist var á um það á alþingi á dögunum, vektu nokkra athygli. Ekki kom það þó á óvart þó að niðurstöðurnar færu allan daginn fram hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins, en vonandi verður áhugi hennar á skoðanakönnunum um Evrópusambandsaðild vaknaður, næst þegar Samtök iðnaðarins senda frá sér fréttatilkynningu.

Mikill meirihluti er andvígur frumvarpi ríkisstjórnarinnar um Icesave-samninga.

Eitt allra helsta deilumál þessa árs er spurningin um það hvort íslenska ríkið eigi að gangast í ábyrgð vegna Icesave-reikninganna sem breskir og hollenskir sparifjáreigendur söfnuðu inn á. En þrátt fyrir að heitar deilur hafi lengi staðið um þetta mál, hefur af einhverjum ástæðum lítill áhugi virst vera á því að kanna sjónarmið hins almenna manns með skoðanakönnun. Þótti Andríki því rétt að gangast fyrir því að það yrði gert og fól Capacent-Gallup að fara á stúfana.

Spurt var: „Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur því að Alþingi samþykki fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninga?“ Skemmst er frá því að segja að „mjög hlynnt“ voru 4%. „Frekar hlynnt“ voru 15,6%. „Frekar andvíg“ voru 20,3% og „mjög andvíg“ voru 47,6%. „Hvorki né“ sögðust 12,5% vera.

Samkvæmt því eru 19,6% frekar eða mjög hlynnt því að Alþingi samþykki frumvarpið um Icesave-skuldbindingarnar, 67,9% eru frekar eða mjög andvíg því, en 12,5% eru hvorki hlynnt því né andvíg.

Ef einhver hefur áhuga á að velta fyrir sér hlutföllum stuðningsmanna og andstæðinga frumvarpsins, ef þeim yrði sleppt úr breytunni sem segjast vera hvorki hlynnt né andvíg, þá fengi hann út úr útreikningum sínum að 22,4% væru hlynnt eða mjög hlynnt því að frumvarpið verði samþykkt, en 77,6% frekar eða mjög andvíg því.

Könnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí og voru 1273 í úrtakinu. Af þeim svöruðu 717 og svarhlutfall var því 56,3%.

F réttastofur sögðu frá því í gærkvöldi að stjórnvöld í Norður-Kóreu hefðu eftir viðræður við Bill Clinton fallist á að láta lausar tvær bandarískar blaðakonur sem dæmdar hefðu verið í fangelsi. Væru þær nú flognar heim með Bill.

Þetta er misskilningur. Stjórnvöld í Norður-Kóreu féllust aldrei á lausn þeirra. Staðreyndin er einfaldlega sú, að segulmagn Clintons á vestrænar fjölmiðlakonur reyndist meira en norðurkóreskir rimlar þoldu. Hann einfaldlega sogaði þær út og fór.