Þriðjudagur 4. ágúst 2009

216. tbl. 13. árg.

Í síðasta mánuði fékk Andríki Capacent-Gallup til þess að spyrja landsmenn nokkurra spurninga fyrir sig um mál sem annað hvort voru ofarlega á baugi, eða hefðu átt að vera það.

Niðurstöður eru nú komnar og eru fróðlegar. Tveggja verður getið í dag, annarra síðar.

Um Evrópusambandið og inngöngu Íslands í það var spurt tveggja spurninga.

Spurt var: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Niðurstöður urðu þær, að „mjög hlynntur“ reyndust vera 17,1%, „frekar hlynntur“ 17,6%, „frekar andvígur“ voru 19,3% og „mjög andvígur“ 29,2%. „Hvorki né“ sögðust 16,9% vera.

Samkvæmt því voru 48,5% mjög andvíg eða frekar andvíg, en 34.7% frekar hlynnt eða mjög hlynnt, en 16,9% hvorki hlynnt né andvíg.

Ef þeim, sem völdu svarið „hvorki né“, er sleppt úr niðurstöðunum, eru því 58,3% frekar eða mjög andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en 41,7% frekar eða mjög hlynnt.

Könnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí. Dagana þar á undan hafði mjög verið deilt um það á þingi hvort fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að óska inngöngu í Evrópusambandið. Þótti því eðlilegt að spyrja einnig hvort fólk vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka ákvörðun, en eins og menn vita, var það niðurstaða meirihlutans á alþingi að ekki skyldi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Spurt var: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Niðurstöður urðu þær, að að „mjög hlynntur“ reyndust vera 45,3%, „frekar hlynntur“ 15,6%, „frekar andvígur“ voru 11,3% og „mjög andvígur“ 17,9%. „Hvorki né“ sögðust 9,9% vera.

Samkvæmt könnuninni eru því 60,9% eru frekar eða mjög hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um þessa ákvörðun, en 29,2% frekar eða mjög á móti því að um hana fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, en 9,9% segjast hvorki hlynnt né andvíg.

Ef þeim, sem völdu svarið „hvorki né“, er sleppt úr niðurstöðunum eru því 32,4% þeirrar skoðunar að ekki eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort „Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu“, en 67,6% vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það mál. Könnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí og voru 1273 í úrtakinu. Af þeim svöruðu 717 og svarhlutfall var því 56,3%.