G ylfi Magnússon, talsmaður formanna stjórnarflokkanna, var í einu sinna ótalmörgu viðtala í vikunni og nú um krónuna. Gylfi taldi að krónan væri of lágt skráð og myndi hækka, en fyrst þyrfti að samþykkja Icesave-ánauðina.
Í rúmlega hálft ár hefur þessi söngur komið samfellt úr stjórnarráðinu: Við þurfum bara að fá þennan og þennan draum okkar uppfylltan og þá mun krónan styrkjast. Ef við fáum að reka seðlabankastjóra sem við hötum, þá mun það „auka traust Íslands erlendis“ og krónan líka styrkjast. Ef við fáum að senda inngöngubeiðni í Evrópusambandið, þá mun sú ákvörðun ein og sér senda gríðarlega mikilvæg skilaboð og krónan styrkjast. Ef við fáum að láta íslenska ríkið gangast undir Icesave-ánauðina, þá mun það sýna að við séum að braggast og krónan mun styrkjast. Bara ef Samfylkingin fær alla sína drauma uppfyllta, þá mun krónan styrkjast og allt komast á rétta braut.
Og ekki gera fréttamenn athugasemdir. Ekki rifja fréttamenn upp stóryrðin sem voru höfð uppi um nauðsynina sem væri á því að reka seðlabankastjórana eða senda inngöngubeiðnina í Evrópusambandið, nú þegar gengishækkun er veifað framan í menn sem gulrót til að samþykkja einn Samfylkingardrauminn enn.
Fréttamenn sýna ráðherrunum lítið sem ekkert aðhald. Núverandi ráðherrar virðast geta farið sínu fram og beitt þeim aðferðum sem þeim sýnist, án alls aðhalds hefðbundinna fjölmiðla. Og allra minnst aðhald fá „ópólitísku ráðherrarnir“. Ljósvakamiðlarnir nefna það ekki einu sinni einu orði að svo virðist sem viðskiptaráðherra landsins fari með vísvitandi ósannindi í opinberum yfirlýsingum. Slík er áherslan á að viðhalda helgimynd hinna umboðslausu „ópólitísku ráðherra“ að ráðherrarnir eru ekki einu sinni spurðir hvort og þá hvað þeir hafi kosið í síðustu alþingiskosningum.