Mánudagur 27. júlí 2009

208. tbl. 13. árg.

Í Noregi hefur flokkur nokkur komist til mikilla valda undir merkjum róttækrar vinstrimennsku og umhverfisverndar. Fyrir flokknum fer Kristin Halvorsen og er hún orðin fjármálaráðherra Noregs. Steingrímur J. Sigfússon hefur lengi talað um að þessi flokkur sé bræðraflokkur vinstrigrænna og Kristin Halvorsen persónulegur vinur og baráttufélagi sinn.

Ríkisstjórn Noregs hefur nú ákveðið að hefja olíuleit á viðkvæmum svæðum við Jan Mayen. Umhverfissamtök eru afar reið og margir óbreyttir félagsmenn í flokki Halvorsen líka. Þeir segja að með þessu sé gengið þvert gegn því sem flokkur þeirra hafi staðið fyrir og barist fyrir í kosningum. Þeir vinstrigrænu í ríkisstjórninni og þinginu eru auðvitað alveg á móti þessu, en leyfa það samt, og fá þá að sitja áfram í ríkisstjórn og leiða nefndir.

Var búið að nefna að Steingrímur J. Sigfússon telur hinn norska vinstriflokk vera bræðraflokk hinna íslensku vinstrigrænu og Kristinu Halvorsen fjármálaráðherra mikinn félaga sinn?