Helgarsprokið 26. júlí 2009

207. tbl. 13. árg.

F réttablaðið vitnaði í síðustu viku til ritstjórnargreinar nýjasta heftis Lögmannablaðsins, þar sem Borgar Einarsson skrifar að nú um stundir sé í íslensku þjóðlífi „lítil stemmning fyrir skynseminni“. Nefnir hann sem dæmi að maður sem eyðilagt hafi hús, sem hann einu sinni hafði átt en var komið í annarra eigu, hefði verið hylltur sem hetja og þeir sem hvetji fólk til þess að hætta að greiða af lánum sínum fái góðar undirtektir.

Þetta má að vissu leyti til sanns vegar færa. Sjálfsagt er þó að hafa í huga, að þeir sem hylla skemmdarverkamanninn eða taka undir með þeim sem ráðleggja skuldurum að koma sér í vanskil, eru væntanlega ekki dæmigerðir borgarar. Þetta er fólk sem undanfarna mánuði hefur „bloggað“ af miklum móð og margt hvert þannig tekið þátt í því að útata íslenska þjóðmálaumræðu í leðju.

Sumir vísa gjarnan til „bloggheima“, segja þá „loga“ yfir einhverju, og að þar með sé einhver saga sögð. Líklega er mun nær sanni, að hópur orðljótra æsingamanna hafi yfirtekið þennan vettvang og fæstir venjulegir borgarar þori eða vilji reka þar inn nefið, ekki frekar en inn á skuggalega slagsmálabúllu síðla nætur. Auðvitað eru á því undantekningar, þó nokkuð er til af fólki sem heldur úti „blogg“-síðum þar sem rætt er af sæmilegri yfirvegun um mál, og reynt að sýna sanngirni, en þegar hitamál koma til tals, þá hverfur þetta yfirvegaða fólk fljótt í skuggann af hinum.

Afleiðingin af þessu er meðal annars, að fjarstæðukenndar staðhæfingar blasa við í ótal áttum. Þeir sem lesa netfréttir Morgunblaðsins mega meira að segja búast við því að einnig blasi við þeim fyrirsagnir óðra manna, sem æpa róg og níð um þá sem fjallað er um í fréttinni. Þetta þykir sumum vera sérstakur sigur lýðræðis.

Önnur afleiðing er að þeir sem taka hæstu blogg-öskrarana sem dæmi um venjulega Íslendinga, taka að halda að virðing fyrir lögum og rétti hverfi. Og það sem verra er, ýmsir sem veikir eru fyrir lesa stóryrðabloggin og taka að trúa bæði því sem þar er sagt um menn og málefni, sem og því að það sé bara allt í lagi að taka lögin í eigin hendur.

Þegar maður nokkur reyndi að gera slökkviliðið í Reykjavík óstarfhæft þá gripu fjölmargir „bloggarar“ andann á lofti, töluðu um að þetta sýndi einfaldlega að fólk væri „búið að fá nóg“ og að „tvær hliðar“ væru á öllum málum, að þessi maður hefði augljóslega verið beittur harðræði banka eða innheimtustofnana. Það varð strax óhugnanlega útbreitt viðhorf að það væri bara alls ekki víst að maðurinn hefði ekki eitt og annað til síns máls, eða að gjörðir hans væru ekki á einhvern hátt „skiljanlegar“. Fréttamenn lögðu áherslu á að slökkvibifreið hefði allan tíman verið tiltæk í Hafnarfirði, svo hættan hefði ekki verið eins mikil og menn hefðu haldið. Það var ekki fyrr en í ljós kom að maðurinn kenndi hvorki bönkum né ríkinu um hvernig fyrir honum væri komið, og var ekki með efnahagsástandið á heilanum, sem varnirnar fyrir hann dóu út.

Þegar maðurinn á Álftanesi eyðilagði hús sem hann hafði veðsett og síðar misst upp í gamlar skuldir, þá spruttu fram fjölmargir „bloggarar“ sem kölluðu hann hetju. Augljóst var hvorum megin samúð fréttamanna Ríkisútvarpsins lá, en þeir höfðu mestan áhuga á „framgöngu“ sjóðsins sem hafði fengið húsið upp í skuld mannsins. Minnti það á „fréttir“ þeirra síðasta vetur af árásum á lögreglumenn og lögreglustöðvar. Þær fréttir snerust iðulega um „framgöngu lögreglunnar“, hvort hún hefði ekki örugglega verið nógu lin. Þetta manar upp í fólki ranghugmyndirnar.Menn, sem þó vilja láta taka sig alvarlega, halda úti stóryrtum bloggsíðum, þar sem ekki síður stóryrtar athugasemdir lesenda standa óáreittar, ýta undir þessar tilfinningar sumra, þó þeir telji sig auðvitað enga ábyrgð bera þegar einhver gengur of langt. Þá segja þeir kannski eina og eina setningu til að fordæma svona aðgerðir, eða að minnsta kosti að þeir vilji ekki hvetja til slíkra verka, og svo heldur áfram sami söngurinn og áður.

Þessu tengt er að sumir sem tala mikið um að lögbrot hafi verið framin í rekstri bankanna, virðast hafa litlar áhyggjur af lögum og rétti þegar kemur að rannsóknum mála. Þeim finnst til dæmis sjálfsagt að fréttamenn birti upplýsingar úr lánabókum banka, þó þar sé rofin bankaleynd. Þeim finnst sjálfsagt að ráðgjafar saksóknara séu stóryrtir opinberlega um hugsanlega sekt og sýknu einstakra manna. Þeim finnst sjálfsagt að í rannsóknarnefnd alþingis sitji einstaklingur sem í upphafi rannsóknar tjáir sig opinberlega um hvað eigi að verða meginniðurstaða hennar. Þeim finnst allt svona vera í lagi, ef það er til „að upplýsa málin“. En enginn spyr þessa menn hvað þeim fyndist ef hlutirnir sneru í aðra átt; ef ráðgjafar og nefndarmenn töluðu opinberlega um að allir væru saklausir og nornaveiðar færu fram í þjóðfélaginu, en ætluðu samt að koma áfram að rannsóknum.

Þeir sem réttilega fara fram á að viðskiptalífið fari að lögum og að brot á þeim séu rannsökuð og, ef tilefni er til, fyrir þau ákært og dæmt, þeir ættu þá að sýna sæmilegt fordæmi og fara að lögum sjálfir. Ekki er vafi á því að fíkniefnadeild lögreglunnar næði fleirum ef hún hætti einfaldlega að fara að lögum sjálf, ryddist inn í hús og handtæki menn án dóms og laga. En það er einmitt einkenni réttarríkis að við rannsókn mála verður að fara að réttum lögum, en ekki því sem þeir sem hæst hrópa hverju sinni heimta. Þó menn krefjist þess, að við rannsókn fíkniefnabrota, umferðarbrota, líkamsárása eða annarra lögbrota, sé skilyrðislaust farið að lögum, þá er ekki þar með sagt að menn vilji ekki að hinir seku náist. Menn vilja einfaldlega ekki afnema réttarríkið. Með því yrði margfalt meira tjón unnið en af gjaldþroti banka.

Hvaða áhrif halda menn að öskurkór „blogg“síðnanna hafi á rannsóknir mála? Þeir sem hafa, enn sem komið er, engri ábyrgð sætt fyrir hótanir og stóryrði í garð nafngreinds fólks, eiga sinn þátt í að skapa það andrúmsloft að fólki finnist sem skynsemin sé á bak og burt og götuviskan tekin við. Hvers konar ákærur halda menn að gefnar verði út í því andrúmslofti? Hvers konar þjóðfélag verður hér, á meðan öskurkórinn dynur í eyrum? Hvað mun fólk segja um þessa tíma þegar horft verður til baka? Það má vel vera að nokkrir viðskiptamenn hafi unnið íslensku viðskiptalífi mikið ógagn og skert trúverðugleika þess töluvert. En getur ekki verið, að hópur öskrandi bloggara og annarra ákafamanna hafi unnið íslenskri þjóðmálaumræðu sama tjón?