Þriðjudagur 28. júlí 2009

209. tbl. 13. árg.

Þ ann 28. júlí 1662 skrifaði Árni Oddsson lögmaður, síðastur íslenskra höfðingja, grátandi undir einveldisskuldbindingu á Kópavogsfundinum. Brynjólfur biskup streittist á móti þar til Bjelke höfuðsmaður benti honum á dönsku herskipin sem lónuðu fyrir utan.

Þann 28. júlí 2009 segir Össur Skarphéðinsson í Morgunblaðinu að það sé „diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga“ að ráðherraráð Evrópusambandsins hafi látið svo lítið að samþykkja inngöngubeiðni Íslands.

Annars er það ekki síst gert sér til skemmtunar að rifja upp Kópavogsfundinn og setja í samhengi við inngöngubeiðnina í Evrópusambandið. Eftir það má taka tímann, hversu lengi álitsgjafar Evrópusambandaðildar verða að finna út að annað hvort hafi einveldisskuldbindingin alls ekki verið svo slæm, þegar allt kæmi til alls, eða það sé haugalygi að nokkur maður hafi grátið á Kópavogsþingi. Það sé allt lygi úr Jóni Sigurðssyni til að nota gegn Dönum á 19. öld.

Raunar er skemmtilegt hvað áhugamenn um Evrópusambandsinngöngu eru samtaka í að hefja baráttu næstu ára með því að mótmæla fyrirfram að nokkur maður vitni í Jón Sigurðsson. Og auðvitað verða menn að fara varlega í að taka látna menn herskildi í baráttu sem fram fer að þeim fjarverandi.

En þó ýmsu sé reynt að ljúga upp á Jón Sigurðsson eða snúa út úr fyrir honum, þá er margt sem ekki verður af honum haft. Meðal þess er það, að þegar hagsmunir Íslands og annarra ríkja sköruðust, þá tók hann málstað Íslands en ekki hinna. Hann leitaði að rökum fyrir málstað Íslands en lagði ekki allt í sölurnar til að vinna málstað gagnaðilans brautargengi á Íslandi.